.

9. desember
Leó kveikir á öðru aðventukertinu, Betlehemskertinu, áður en systkinin fá leyfi til að heimsækja Súsí. Þau vilja vita meira um uppruna töfrateikniblokkarinnar. Stofan hennar Súsíar er full af spennandi hlutum og minjagripum frá ferðalögum Súsíar og Gvends um heiminn. Leó dregur teikniblokkina upp úr litlum bakpoka og lítur á Súsí.

 „Geturðu sagt okkur eitthvað meira um þessa teikniblokk?“

 „Grunaði ekki Gvend,“ segir Súsí og lítur á vegginn þar sem mynd af Gvendi heitnum hangir. Krakkarnir líta bæði á myndina og svo aftur á Súsí. Hún tekur til máls, „Gvendur lá yfir þessari teikniblokk í mörg ár eftir að hann fann hana. Hann sat kvöld eftir kvöld með nefið í myndunum, grandskoðaði hvert einasta smáatriði. Einn daginn kom hann til mín og sagðist loksins hafa fundið lausnina. Hann sýndi mér eldgamla bók um leyndardóma jólanna, þá bók lagði hann ekki frá sér fyrr en hann kunni hana utanbókar.“

 „Hvar er sú bók núna? Áttu hana ennþá?“ spyr Katla.

 „Jú, hún ætti að vera hérna einhversstaðar,“ segir Súsí og stendur upp til að leita að bókinni.

Eftir langa leit leggur hún stóra bók á stofuborðið. Titillinn Leyndardómar jólanna er grafinn í kápuna og fyrir neðan titilinn er stór rauður kristall sem virðist glóa. Blaðsíðurnar eru gulnaðar og Katla nær varla að skilja fallegt letrið en það eru myndir af jólasveinum í allskonar fötum. Einnig eru myndir af Grýlu, Leppalúða og jólakettinum. Einn jólasveinninn situr við borð umkringdur leikföngum, hann er að teikna í litla teikniblokk.

 „VÁ! Leó sjáðu! Þú átt teikniblokk eins og jólasveinarnir eiga!“ segir Katla spennt og bendir á myndina í bókinni. Leó heldur áfram að fletta og finnur kafla sem nefnist Jólaandakristallinn, og þar stendur: Trú mannfólksins á jólasveinana er mæld með jólaandakristöllum, einn slíkur kristall er framan á þessari bók.

 Trú mannfólksins er forsenda þess að töfrar jólanna lifi og tröllin í Grýluhelli geti sinnt sínu starfi. Ef mannfólkið hættir að trúa og töfrarnir hverfa mun sólin aftur verða eitruð tröllum og allir jólasveinarnir gætu orðið að steini. Það er því afar mikilvægt að fylgjast vel með litnum á kristalnum og rækta trúna ef tilefni er til. Á næstu síðu sést hvað hinir ýmsu litir kristallana merkja.

Leó flettir en er þá kominn á kafla um matarvenjur jólakattarins.

 „Súsí, það vantar blaðsíðu, veistu hvar hún gæti verið?“ spyr Leó.

 „Blaðsíðan er á safni í Flórens á Ítalíu,“ segir Súsí og sýnir þeim innrammaða fréttagrein.

Systkinin stara forviða á hana svo Súsí útskýrir nánar.

 „Sjáiði til, árið 1972 tók Gvendur minn þátt í skutlukeppni á Ítalíu. Hann var kominn í úrslitin þegar óheiðarlegur keppinautur hans hellti vatni yfir seinasta blað Gvends. Hann dó þó ekki ráðalaus heldur dró bók upp úr töskunni sinni, reif út eina blaðsíðu og braut saman sigurskutlu keppninnar. Safnið vildi undireins fá þennan kostagrip í hendurnar og síðan þá hefur skutlan verið til sýnis í Flórens.“

 „Æj nei, hvað gerum við þá?“ spyr Katla örvæntingarfull.

 „Kannski er til önnur svona bók einhversstaðar? Er bókasafnið opið?“ spyr Leó.

„Við getum flett bókinni upp á netinu,“ segir Súsí og hleypur fram.

Þegar krakkarnir finna Súsí er hún búin að setja upp gleraugu og situr við tölvuna. Leó sækir stóla fyrir sig og Kötlu og þau setjast hjá Súsí. Hún flettir upp leitir.is og skrifar heiti bókarinnar í leitarvélina. Súsí les úr upplýsingunum sem birtast. „Látum okkur sjá, hér stendur að bókin sé til á tveimur bókasöfnum á landinu. Það eru tvö eintök á Akureyri.“

 „Það er allt of langt í burtu,“ segir Katla en Súsí heldur áfram, „…og eitt eintak í… svei mér þá, heppnin er með ykkur,“ segir hún glöð.

 „Hvar er hún?“ spyr Leó spenntur. „Það er eitt eintak í skólanum ykkar,“ segir Súsí.

Systkinin stökkva upp af gleði. Þau gefa hvort öðru fimmu og Súsí fær einnig sitthvora fimmuna. Súsí snýr sér að Kötlu, „Katla mín, manstu þegar ég sagði þér að þú fengir gjöf seinna?“

Katla kinkar kolli. Súsí réttir fram bókina um leyndardóma jólanna. „Hér er hún núna, þú mátt eiga þessa bók,“ segir hún.

 „Takk, Súsí, þú ert best!“ segir Katla og knúsar frænku sína innilega.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður