En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

9. kafli: Nornin býður í te

„Þurrkaðu þennan hræðslusvip framan úr þér,“ hreytti nornin í Pétur. „Ég er engin tröllskessa ef þú heldur það.“

            Pétur kyngdi og heyrði Stefaníu flissa við hlið sér.

            „Hvað voruð þið eiginlega að laumast þarna úti?“ endurtók nornin hvasst. „Krakkar eins og þið eigið ekki að vera að flækjast um í svona veðri. Það getur verið stórhættulegt.“

            „Við vorum bara á leiðinni heim úr skólanum,“ sagði Stefanía.

            „Hvers vegna kom enginn og sótti ykkur?“

            „Mamma og pabbi eru í vinnunni,“ sagði Stefanía.

            Nornin hnussaði.

            „Þá verðið þið bara að bíða hér þar til lægir,“ sagði hún afundin. „Viljið þið ekki fá eitthvað heitt að drekka?“ Án þess að bíða eftir svari dró hún út skúffu og fór að gramsa í henni. „Kaffi, búið,“ tautaði hún. „Kakó, búið. Te. Drekkið þið te? Mangó og engifer?“

            „Jájá,“ svaraði Stefanía.

            Pétur sagði ekkert. Honum fannst alltaf óþægilegt að hitta nýtt fólk. Þá vissi hann ekkert hvernig hann átti að hegða sér og fannst hann ekki hafa stjórn á neinu. Hann kunni heldur ekki vel við þennan furðulega skakka kofa og til að bæta gráu ofan á svart þá fékk hann ekki einu sinni að vera í sínum eigin fötum. Sem betur fer var Stefanía með honum.

            Nornin tók ketil af nagla á veggnum og dýfði honum ofan í fullan pott af vatni sem stóð á gólfinu. Svo kom hún katlinum fyrir yfir eldinum í vaskinum.

            „Hvers vegna notarðu ekki kranann?“ spurði Stefanía.

            „Hann virkar ekki,“ sagði nornin. „Ég er svo nýflutt inn skilurðu.“ Stefanía kinkaði spekingslega kolli.

            Pétur skildi ekki. Þegar hann hafði flutt inn í húsið sitt höfðu allir kranar virkað fullkomlega.

            „Rafmagnið er heldur ekki komið á,“ sagði nornin. „En það skiptir engu, ég kann betur við kertaljós hvort eð er.“ Ketillinn fór að blístra og nornin skellti nokkrum tepokum ofan í hann. Pétur fylgdist með henni gramsa í hrúgunni á borðinu í leit að hreinum bollum og tók varla eftir því þegar Lubbi nálgaðist. Það var ekki fyrr en hann lagði höfuðið í kjöltu Péturs að hann varð hundsins var.

            „Prófaðu að klóra honum á bak við eyrun,“ sagði nornin og rétti Pétri bolla með mynd af Elísabetu Englandsdrottningu.

            Pétur gerði það, mjög varlega, og Lubbi gaf frá sér vellíðunarstunu. Pétur saup á teinu og klappaði Lubba á meðan Stefanía og nornin töluðu saman. Fljótlega stytti upp og krakkarnir skiptu aftur í sín eigin föt. Þau voru enn rök og lyktuðu af reyk.

            „Sjáumst,“ kallaði Stefanía til nornarinnar þegar þau gengu í burtu.

            Pétur gaut augunum yfir öxlina og veifaði til Lubba sem dillaði skottinu á móti. Þessi hundur var sko engin ófreskja. Pétur gat ekki beðið eftir því að þeir hittust aftur.


Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Tómas Zoega um Pétur og Stefaníuopnast á hverjum degi til jóla!Hver býr í kofanum? Eru allar nornir hættulegar? Fylgist með spennandi jólaævintýri Péturs og Stefaníu á hverjum degi til jóla!

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!