En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

9. Ráma röddin í dyragættini

Guðrún fékk ekki tíma til að útskýra fyrir mömmu hvar skólataskan hennar væri því einhver bankaði á dyrnar. Mamma fór til dyra og bauð einhverjum gott kvöld.

 „Gott kvöld,“ ansaði rám rödd sem Guðrún kannaðist við. Hún sá pabba sinn læðast undir borð. „Er Guðrún heima?“ bætti ráma röddin í dyragættinni við.
 „Já,“ svaraði mamma án þess að hika og kallaði inn í íbúðina: „Guðrún mín, það er verið að spyrja eftir þér.“ Guðrún gekk hægum skrefum að dyrunum. Henni til mikillar skelfingar þekkti hún konuna sem stóð í gættinni.

 Guðrún fraus í sporunum. Hún greip í peysu mömmu sinnar með öllum krafti, „ekki fara,“ hvíslaði hún að mömmu sinni „ekki skilja mig eftir eina með henni.“
 „Ekki þessa vitleysu,“ tautaði mamma, hún leysti grip Guðrúnar á peysunni og rölti inn í íbúðina.
 Guðrún var alveg að fara að pissa í sig af hræðslu.

 „Mikið ertu föl í framan.“ Konan hló dátt.
 „Ha-ha-hæææ,“ stamaði Guðrún. Hvað vildi konan? Vildi hún kannski fleiri börn í pottinn sinn? Guðrún kyngdi óttanum og ræskti sig: „Sæl, eldri kona góð,“ sagði hún.
 „Þú gleymdir dálitlu, skinnið mitt.“ Konan otaði skólatöskunni að Guðrúnu.
 „Ó,“ sagði Guðrún og tók við töskunni sinni.
 „Þú gleymdir þessu í litla leiðangrinum þínum,“ fnæsti konan milli samanbitinna tanna.
 „E-e-e, f-f-f-fyrirgefðu.“ Guðrún titraði af hræðslu.
 „Jæja, mannsbarnið mitt! Nú ætla ég að fara niður í kjallara og gæða mér á kartöflustöppu,“ sagði konan.
 „Ka-ka-kartöflustöppu?“ stamaði Guðrún
 „Já, auðvitað krakkaskratti! Hvað hélstu eiginlega að ég ætlaði að borða?!“ Konan gaf Guðrúnu ekki tíma til að svara heldur færði ógnarstóran munn sinn upp að smávöxnu höfði Guðrúnar: „Í þínum sporum,“ hvíslaði konan, „myndi ég ekki segja neinum frá því sem þú sást.“
 „É-é-ég lofa, ég lofa, ég lofa,“ muldraði Guðrún skelfingu lostin.
 Konan virti Guðrúnu fyrir sér.

 „Afar girnileg,“ sagði konan.
 „Hv-hv-hvað?“ Guðrún fann hjartað slá á ógnarhraða í brjósti sér.
 „Máltíðin auðvitað.“
 „Máltíðin?“ endurtók Guðrún. Hún leit á fingurna sína, svo á fæturna. Guðrún var núna alveg viss um að hún myndi enda lífið sem kvöldmatur gamallar konu.
 „Já, lasanjað auðvitað!“
 „Ó, ég hélt...ég hélt, að þú værir að tala um mi-mi-mig.“
 „Ha-ha-ha!“ konan hló illkvittnislegum hlátri og hvíslaði: „Þú ert nú reyndar með mjög girnilega tröllafingur.“
 Guðrún starði á fingurna sína.
 „Þú veist,“ sagði konan, „ef þú hagar þér ekki vel fyrir jólin gætir þú endað í barnasúpu.“
 „En, en Grýla og Leppalúði eru dauð.“
 Konan rétti úr búk sínum og starði ógnandi niður á Guðrúnu: „Ég myndi nú ekki vera svo viss um það.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!