This is a test calendar and it's not possible to participate!

.

8. desember
Það snjóaði mikið í nótt svo Kári og Leó fara saman út að moka snjó úr innkeyrslunni. Grímur er að þvo þvott en Katla stelst inn í herbergið hans Leós og finnur töfrateikniblokkina. Hún fer með hana inn í sitt herbergi og byrjar að teikna á eina auða blaðsíðu. Hún vandar sig mikið við að teikna Mola, gamla hundinn þeirra.

Úti eru Kári og Leó á fullu að moka snjó.

 „Ég hef tekið eftir því að þú ert minna að hanga í tölvunni,“ segir Kári allt í einu. „Ég vildi bara segja þér hvað ég er ánægður með þig.“

 „Af því ég er ekki í tölvunni?“ spyr Leó.

 „Allt er gott í hófi. Tölvan getur verið skemmtileg en þú varst hættur að gera nokkuð annað,“ segir Kári. „Við pabbi þinn vorum farnir að hafa áhyggjur. En þú virðist hafa áttað þig sjálfur og mér sýnist þér líka líða miklu betur núna. Ég er stoltur af þér.“

 „Takk, pabbi,“ segir Leó.

 Allt í einu hættir Kári að moka og stingur skóflunni í skafl. „Vissirðu að þegar ég var lítill polli, þá bjó ég í rauða húsinu aðeins neðar í götunni. En ég kom oft hingað uppeftir því dóttir hennar Erlu, Ásgerður, bjó hérna þá og hún átti hund.“

Kári beygir sig niður og tekur upp lúku af snjó.

 „Við tvö og Aska, hundurinn hennar, lékum okkur oft í snjónum á veturna og þá fannst Ösku skemmtilegast þegar við Ásgerður fórum í SNJÓSTRÍÐ.“

Kári kastar snjóbolta beint í Leó. Leó bregður en er fljótur að henda frá sér skóflunni og hnoða sinn eigin bolta. Feðgarnir skemma næstum alla vinnuna sína en skemmta sér konunglega að kasta snjó hvor í annan, alveg þangað til einn snjóboltinn fer næstum því í Erlu gömlu sem er að fara út með ruslið.

 „Guð! Fyrirgefðu okkur, elsku Erla,“ kallar Kári.

Erla lítur á skömmustulega feðgana, „þú hefur ekkert breyst Kári,“ segir hún og brosir.

 „Fyrirgefðu, snjóboltinn átti alls ekki að fara í þig,“ segir Leó og lítur á skóna sína.

 „Iss, það er enginn skaði skeður,“ segir Erla og hendir seinasta ruslapokanum.

 „Ég var að segja stráknum mínum frá snjóstríðinu okkar Ásgerðar og Ösku,“ segir Kári.

 „Aska var frábær hundur, ég er einmitt að leita mér að öðrum hundi sem gæti veitt mér félagsskap nú þegar ég er hætt að vinna og krakkarnir alltaf uppteknir,“ segir Erla og fer aftur inn til sín.

Feðgarnir klára að moka innkeyrsluna og fara svo kaldir inn. Leó flýtir sér upp til að fara í hlýja sokka og grípur þá Kötlu glóðvolga að lita í töfrateikniblokkina. Katla hrekkur við og lokar óvart töfrateikniblokkinni, kunnuleg bjölluhljóð heyrast og í herberginu birtist lifandi hundur sem líkist Mola. Katla knúsar hundinn en Leó er ekki ánægður.

 „Við getum ekki haldið honum, við megum ekki fá annan hund strax,“ segir Leó.

 „Við getum ekki losað okkur við Mola,“ segir Katla og tárast.

 „Þó þessi hundur sé líkur honum þá er þetta ekki Moli. Moli okkar er dáinn,“ segir Leó og það er satt hjá honum.

Katla sér eftir gjörðum sínum en einhvernveginn verða þau að losa sig við hundinn áður en pabbar þeirra komast að leyndarmáli töfrateikniblokkarinnar. Leó fær frábæra hugmynd, þau lauma hundinum út og gefa Erlu gömlu hundinn.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður