En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

8. kafli: Nornin í eldhúsinu

Pétur hrökk undan og skreið í átt að dyrunum. Þá kom hann auga á Stefaníu. Hún sat á stól fyrir aftan nornina og stóra hundinn, vafin inn í bakarasvuntu og glotti.

            „Hvað – hvað er eiginlega í gangi?“ stamaði Pétur.

            „Róaðu þig nú, vinurinn,“ sagði nornin og grettan hvarf úr andliti hennar. Hún var alls ekki jafn ógnvænleg og Pétri hafði sýnst í fyrstu. Hún var kannski ekki vingjarnleg en hún leit í það minnsta ekki lengur út fyrir að vilja éta hann. „Farðu nú úr þessum blautu fötum. Annars gætirðu kvefast.“

            „É-ég?“ spurði Pétur. Stefanía hló.

            „Já, ekki getur Lubbi farið úr feldinum,“ sagði nornin og klappaði hundinum á höfuðið. Hann hristi sig svo slefdropar flugu um allt. Nokkrir lentu á Pétri. „Hérna er svunta sem þú getur sveipað um þig á meðan fötin þorna. Svona, drífðu þig nú.“

            „Fyrir framan alla?“ muldraði Pétur.

            „Ef þú finnur skiptiklefa er þér velkomið að nota hann,“ sagði nornin.

            Pétur leit í kringum sig. Kofinn leit ekki út fyrir að innihalda neitt svoleiðis. Raunar virtist hann vera lítið annað en eitt stórt eldhús sem lýst var upp með nokkrum kertum. Í einu horninu stóð tómur ísskápur sem á vantaði hurðina. Á veggjunum héngu pottar og pönnur á nöglum og á miðju gólfinu var borð sem á stóðu staflar af óhreinum diskum, brúnum banönum og tómum mjólkurfernum. Það undarlegasta af öllu var samt vaskurinn við gluggann. Í honum brann varðeldur. Logarnir dönsuðu letilega og sendu frá sér gráar reykjarslæður. Sumar þeirra rötuðu út um rifu á glugganum en aðrar hópuðust saman uppi við loftið og lituðu það svart. Í grind við hliðina á vaskinum héngu föt Stefaníu.

            „Engan pempíuskap,“ sagði nornin.

            Pétur fór á bakvið stól (sem veitti honum reyndar lítið skjól) og skipti yfir í svuntuna. Hún var allt of stór svo hann varð að vefja henni utan um sig eins og kufli. Nornin tók fötin hans og hengdi þau til þerris við hliðina á fötum Stefaníu.

            „Jæja þá.“ Nornin sneri sér aftur að Pétri og Stefaníu. „Nú þurfið þið að gera grein fyrir ykkar málum. Hvað voruð þið eiginlega að laumast í kringum kofann minn?“ Hún sendi þeim stingandi augnaráð af þeirri gerðinni sem einungis nornir búa yfir.


Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Tómas Zoega um Pétur og Stefaníuopnast á hverjum degi til jóla!Hver býr í kofanum? Eru allar nornir hættulegar? Fylgist með spennandi jólaævintýri Péturs og Stefaníu á hverjum degi til jóla!

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!