En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

8. Glorhungruð og gleymin

Guðrún fann kuldann læsa sig í líkamanum þar sem hún lá í snjónum. Hún hélt niðri í sér andanum og vonaði að konan kæmi ekki auga á hana.
„Var þetta óp?“ tautaði konan út í myrkrið.
 „Óp? Nóp, va-va-vantar þig kannski síróp?“ ansaði karlinn.
 „Nei, ansans aulinn þinn! Ég heyrði hróp!“
 „Ne-ne-nei, það var e-ekkert.“
 „Ertu viss?“
 „Ne-ne-nei, það er ég e-ekki.“

 „Auðvitað ert þú ekki viss. Þú veist ekkert í þinn haus!“ fnæsti konan á karlinn og lamdi hann í höfuðið með trésleif. Svo gekk hún aftur að pottinum og hélt áfram að hræra.
 „Eftir áratugi af tilraunum,“ muldraði konan mjúklega, „held ég að þetta sé loksins hin fullkomna uppskrift! Ekkert getur stöðvað okkur núna!“ sagði hún hlæjandi og starði ofan í pottinn.

Guðrún nýtti tækifærið til að koma sér í burtu. Hún lyfti líkamanum upp frá snjónum og skreið rólega af felustaðnum. Þegar hún var komin úr augsýn stóð hún upp og hljóp eins og fætur toguðu. Guðrún varð að vera fljót. Hún var hrædd um að ef hún væri lengi á leiðinni myndi konan veiða hana og setja í súpuna sína. Guðrún hraðaði sér inn um aðalinngang hússins og dinglaði á bjöllunni að íbúðinni sinni á þrettándu hæð, alveg þangað til að pabbi ansaði. Guðrún hljóp upp tröppurnar. Hún reyndi að láta lítið á sér bera svo konan myndi ekki heyra tramp frá stigaganginum. Guðrún vildi ekki að konan kæmi út úr íbúðinni sinni, gripi sig og setti í pottinn sinn. Guðrún gat andað léttar þegar hún kom loks inn í íbúðina sína á þrettándu hæð.

 „Hvar hefur þú verið Guðrún mín?“ sagði pabbi áhyggjufullur.
 „Konan í kjallaranum borðar börn! Fyrst veiðir hún börn í pokann sinn og svo setur hún þau í súpu!“ hrópaði Guðrún og hvíslaði: „Við verðum að læsa hurðinni. Við verðum að vara alla við og við verðum að flytja burt. Og-og konan á líka risa-risastóran kött!“
 „Hvaða bull er þetta Guðrún?“ svaraði mamma.
 „Hvað varstu að gera barn!“ hrópaði pabbi.
 „Ég var bara aðeins að njósna,“ kjökraði Guðrún.
 „Þún, þer, þsórhættuþleg,“ tautaði pabbi sem virtist vera við það að missa málið af hræðslu. „Þsá þún þig?“ hvíslaði hann.
 „Nei pabbi, ég held hún hafi ekki séð mig.“
 „Hjúkk,“ sagði pabbi, „ þar skall hurð nærri hælum!“
 „Mikið ertu lík honum pabba þínum, Guðrún mín,“ sagði mamma áhyggjufull á svip og bætti við: „Ég var búin að banna þér að njósna um nágrannakonuna. Ég er búin að hafa svo miklar áhyggjur af þér.“

Guðrún steinþagði. Hún vissi upp á sig sökina. Hún hafði óhlýðnast.
 „Fyrirgefðu, ég gægðist inn um gluggann hjá konunni í kjallaranum,“ viðurkenndi Guðrún, skömmustuleg á svip, „en hún borðar börn.“
 Mamma andvarpaði. Pabbi æpti af hræðslu.
 „Þú hefur horft of mikið á sjónvarpið,“ tautaði mamma, „nú skalt þú þvo þér um hendurnar því kvöldmaturinn er tilbúinn.“

Þegar Guðrún var búin að þvo hendurnar gekk hún inn í borðstofu. Pabbi var búinn að leggja þrjá diska á borð.
 „Komdu hingað barnið mitt,“ muldraði pabbi mjúklega, „komdu hingað beint til mín,“ söng hann.

Guðrún settist fegin niður við matarborðið. Hún var orðin glorhungruð eftir daginn. Hún hámaði lasanjað hans pabba í sig af bestu list. En þegar hún kyngdi seinasta bitanum leið henni skyndilega eins og eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera.
 „Fékkstu nýja lestrarbók í skólanum í dag?“ sagði pabbi.
 „Ha, u já?“ Guðrún fann óttann læðast að sér. Hún hafði fengið bók í skólanum og sett hana í skólatöskuna sína og svo...

 „Viltu þá ekki ná í bókina og lesa snöggvast?“ spurði pabbi. Guðrún starði agndofa á föður sinn. Hún var ekki með skólatöskuna. Hún hafði gleymt henni hjá furutrénu fyrir utan gluggann hjá konunni í kjallaranum?

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!