7. desember
„Hún á afmæli í dag,
hún á afmæli í dag,
hún á afmæli hún Súsí,
hún á afmæli í dag.“
Í dag er Súsí 75 ára. Fjölskyldan, Katla, Leó, Grímur og Kári, vekja hana með myndsímtali og syngja fyrir hana afmælissönginn.
„Ji hvað ég er heppin með með fjölskyldu,“ segir Súsí klökk. „Ég hef svo sannarlega dottið í lukkupottinn með ykkur fjögur. Ég sem var næstum því búin að gleyma að ég ætti afmæli. Þakka ykkur kærlega fyrir.“
Katla snýr sér að Leó og hvíslar,„hvernig er hægt að gleyma afmælinu sínu?“ Leó yppir öxlum.
„Ertu búin að plana eitthvað sérstakt í kvöld?“ spyr Grímur.
„Já, við Frost ætlum að spila,“ segir Súsí.
„Grímur keypti læri sem við ætluðum að deila með þér,“ segir Kári. „Það er nóg handa okkur og Frost ef hán vill vera með.“
„Jú, takk,“ segir Súsí. „Hán er yfirleitt svangt, ég læt hán vita og við sjáumst þá öll í kvöld.“
Katla er spennt fyrir afmælisveislunni um kvöldið en hún gleymir henni alveg þegar Gabríel, hrekkjusvínið, gerir grín að henni úti í fyrstu frímínútum. Hann kallar hana smábarn fyrir að trúa enn á jólasveinana. Katla verður svo sár að hún hleypur grátandi inn og beint í fangið á Leó. Hann er góður stóri bróðir og vill láta henni líða betur svo þau mæla sér mót í seinni frímínútunum þar sem hann sýnir henni teikniblokkina. Leó tekur upp svartan lit og flettir að auðri blaðsíðu í bókinni.
„Manstu eftir bangsanum sem Moli skemmdi? Pandabirninum sem þér þótti svo vænt um?“ spyr Leó.
„Já, hún hét Karlotta og ég fékk hana þegar ég var pínulítil,“ segir Katla og fylgist forvitin með því sem Leó er að gera. Hann vandar sig við að teikna Karlottu á auðu blaðsíðuna.
„Oooog tilbúin,“ segir hann. „Leit hún ekki svona út?“
„Jú, en…,“ segir Katla.
„Sjáðu hvað gerist núna,“ segir Leó. Hann stingur litnum í vasann og lokar bókinni. Leó horfir spenntur á bókina en Katla skilur ekki hvað er í gangi. „Eftir hverju erum við að bíða?“ spyr hún.
„Uss… ekki trufla töfrana,“ hvíslar Leó.
„Töfrana? Hvaða töfra? Leó, töfrar eru bara til í ævin…“
Skyndilega heyrist bjölluómur og Karlotta birtist í fanginu á Kötlu.
„…týrum.“ Katla trúir ekki sínum eigin augum. Hún lítur á teikniblokkina, á Leó, á Karlottu og aftur á Leó.
„HVERNIG FÓRSTU AÐ ÞESSU?“ æpir hún.
„Ussss…,“ segir Leó og grípur fyrir munninn á henni. „Þetta er leyndarmál, þú mátt ekki segja neinum, ekki einu sinni pabba og pabba.“
„Má ég prófa?“ spyr Katla og ætlar að grípa í teikniblokkina en Leó kippir henni í burtu.
„Nei,“ segir Leó. „Það eru bara fjórar tómar blaðsíður eftir og ég ætla að spara þær.“
Bjallan hringir og systkinin hlaupa inn. Katla felur Karlottu pandabjörn í töskunni sinni og passar að segja ekkert við pabba sína né Súsí um kvöldið. Pabbarnir græja matinn en krakkarnir og Súsí fara inn í stofu þar sem Frost er búið að setja upp spil. Frost er mjög heppið í spilum og vinnur öll spilin. Pabbarnir kalla í mat og þau borða öll saman bragðgott lambalæri með miklu meðlæti.
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.