Loksins kom
Pétur aftur til sjálfs sín. Hann gat ekki bara staðið hjá og horft upp á
vinkonu sína vera numda á brott. Hann varð að gera eitthvað! Hann vissi ekki
alveg hvað, bara eitthvað.
Hann lagðist upp í vindinn með
skólatöskuna á bakinu og klöngraðist yfir ógreiðfæra lóðina í humátt á eftir
verunum. Hann missti fljótt sjónar á þeim en ekki leið á löngu þar til hann kom
að kofanum. Drungalegir veggirnir gnæfðu yfir, alsettir stálþyrnum.
Hjartað í Pétri hamaðist. Hann vissi
ekki hvort það væri vegna áreynslunnar við að berjast gegn veðrinu eða ótta við
það sem leyndist framundan. Hann skreið meðfram veggnum þar til hann kom að
stórri hurð. Þetta var ekki venjuleg útidyrahurð, í það minnsta var hún ekki
eins og þær sem hann átti að venjast. Hún var hvít og glansandi og minnti helst
á ísskáp. Pétur kom hvergi auga á bréfalúgu til að gægjast inn um svo hann
lagði eyrað upp að hurðinni og hlustaði.
Ekkert. Ekkert nema ýlfrið í
vindinum.
Eða hvað?
Þetta ýlfur hljómaði eitthvað
undarlega. Það hækkaði jafnt og þétt þar til það varð að skerandi spangóli.
Skrímslið, hugsaði Pétur skelfingu
lostinn. En áður en honum gafst ráðrúm til að svo mikið sem snúa sér undan var
hurðinni hrundið upp. Beinaber krumla læstist um handlegginn á honum og dró
hann inn. Svo stökk skrímslið á hann.
Pétur æpti og faldi andlitið í
höndum sér. Blautur feldur lagðist yfir hann og Pétur bjóst við því að finna
fyrir hvössum tönnum á hverri stundu. En það gerðist ekki. Í stað þeirra
birtist eitthvað mjúkt og bleikt og sleikti hann af miklum ákafa.
„Hættu þessum ópum, drengur,“ sagði
rám rödd. „Og Lubbi, láttu hann í friði.“
Skrímslið sleppti Pétri. Hann andaði
ótt og títt en áræddi að lokum að gægjast á milli fingranna. Fyrir framan hann
stóð risavaxinn hundur. Út úr munninum hékk löng tunga og niður úr henni lak
sleftaumur. Hann dillaði skottinu af miklum ákafa. Við hliðina á honum stóð
eldgömul kona í svartri loðkápu og með hræðilega grettu á andlitinu.
Pétur sá undir eins að hún gat ekki
verið neitt annað en norn.
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.