En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

7. Ba-ba-barnakjöt?

Guðrún starði inn um gluggann. Þetta var eins og að horfa á sjónvarpsþátt. Það var byrjað að kvölda og Guðrún átti að vera löngu komin heim. Mamma og pabbi voru örugglega orðin skíthrædd um hana. Guðrún gat bara ekki farið heim. Ekki alveg strax.

Guðrún starði. Hún starði á ógnarstórt og kafloðið kvikindið sem hjúfraði sig upp að konunni. Það fór ekkert á milli mála að þetta var köttur. Konan brosti út að eyrum og hvíslaði eitthvað í eyra kattarins. Guðrún heyrði ekki hvað það var. Glugginn var nefnilega lokaður. Konan haltraði í átt að risastórum potti sem stóð í eldstæði í miðju eldhúsinu og hrærði í honum með ógnarstórri trésleif.

Konan þefaði af innihaldi pottsins og umlaði eitthvað á borð við:
 „Ummm.... “ eða „nammm....“.
 Kötturinn þefaði og sleikti út um. Það gat ekki verið að konan væri skíthrædd við ketti eins og mamma hafði sagt. Annað hvort var konan að plata eða mamma. En mamma sagði alltaf satt svo konan hlaut að vera sú sem laug.

Mikinn reyk lagði frá pottinum. Konan haltraði í átt að eldhúsglugganum og opnaði hann upp á gátt til að hleypa reyknum út. Nú gat hún heyrt allt sem konan sagði svo hún lagði við hlustir:

 „Komið hingað börnin mín,“ söng konan hástöfum.
 „Komið hingað öll til mín, ykkur vil ég bjóða,“ hélt hún áfram rámri röddu.
 „Leppur, Skreppur, Lápur, Skrápur, Langleggur og Skjóða...“.
 
Skyndilega heyrðist stór hvellur og það sauð upp úr pottinum. Reykurinn frá pottinum umkringdi Guðrúnu. Ilmurinn af honum var unaðslegur, hann minnti Guðrún helst á piparkökur eða jólatré.
 „Ansans ári!“ hrópaði konan og kallaði í átt að stofunni: „Komdu hérna lúðinn þinn!“
 Karlinn í kjallaranum silaðist inn í eldhúsið, agndofa á svipinn.
 „Hva-hva-hvað?,“ muldraði hann og bætti við: „Ge-get ég aðstoðað þig elsku krúsidúllan mín?“
 „Ekki standa þarna eins og eldgömul þvara,“ hreytti konan í karlinn.
 „Af-af-afsakið.“
 „Réttu mér tusku karlræfill! Leggðu bolla nú á borð!“
 „Skal gert frú mín góð. Hvað á ég að leggja marga bolla?“
 „Fimm auðvitað, Leppur, Skreppur og Leiðindaskjóða eru á leiðinni að prufa andann.“
 
Guðrún varð hissa. Hún þekkti Lepp og Skrepp vel. Þeir voru gangaverðir í Fjallaskóla, skólanum hennar. Hvers vegna ætluðu Leppur og Skreppur að heimsækja undarlegu konuna í kjallaranum?

Karlinn teygði sig varlega í fimm bolla sem allir voru skreyttir með máluðum myndum af fjöllum. Því næst lagði hann bollana snyrtilega á eldhúsborðið og nam staðar fyrir framan konuna sína. Hann horfði á hana skelkaður á svip.
 „E-e-elskan,“ muldraði hann.
 „Hvað ert þú að glápa eins og eldgömul sápa?“ hvæsti konan.
 „E- e-er nokkuð ba-ba-barnakjöt í pottinum?“

Guðrún hrópaði upp yfir sig af hræðslu. Hún greip fyrir munninn. Guðrún vonaði að konan hefði ekki heyrt í sér. En konunni varð bilt við. Hún sneri sér snögglega í átt að glugganum, í átt að Guðrúnu. Hún haltraði nær, starði í átt að runnanum. Í átt að felustaðnum.

Guðrún lagðist kylliflöt í jökulkalda fönnina. Hún hélt inni í sér andanum og vonaði að konan kæmi ekki auga á hana.  

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!