Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Næturvaktin

Mamma og pabbi voru sofnuð. Urður hins vegar var búin að gera sitt allra besta til að halda sér vakandi. Og passa að mömmu og pabba grunaði ekki neitt. Hún spilaði við þau. Borðaði popp. Horfði á bíómynd. Reyndi að leiða hjá sér allt þetta fullorðins tal um sannleikann og hvað hann væri sagna bestur. Annars yrði hún bara reið. Hún var sko ekkert að plata. En þau höfðu alveg látið það eiga sig að tala meira um baksturinn og drillenissen. Urður bauð góða nótt eins og ekkert væri í bígerð. Svo beið hún. Þetta var erfitt. Hún hafði aldrei vitað hvað það var erfitt að halda sér vakandi. Sérstaklega ekki þegar maður lá kyrr uppi í rúmi og lét eins og maður væri sofandi.

En nú virtust þau loksins sofnuð. Urður stóð upp úr rúminu og klæddi sig í heimasokkana. Það héldi smá hita í tásunum og það sem mikilvægara var, hjálpaði henni að læðast hljóðlaust. Hún gekk að herbergisdyrunum og kíkti fram. Allt virtist vera með kyrrum kjörum. Hún sá voða lítið af litlu hurðinni. Gæsahúðin spratt fram. Hárin á hnakkanum risu. Þyrfti hún í alvöru að fara út úr herberginu ef hún ætlaði að fylgjast með? Herbergisþröskuldurinn var óyfirstíganlegur. Svo skörp lína á milli öryggis og... Og einhvers. Hvernig hafði henni fundist þetta vera góð hugmynd?

Urður bakkaði í rúmið sitt. Hún reyndi að pakka sænginni alls staðar að sér, en hrollurinn sat í henni. Þrátt fyrir þreytuna átti hún erfitt með að sofna. Hún lá kyrr og reyndi að anda rólega, hlusta á þögnina, finna svefninn. Allt í einu var þögnin rofin. Hljóð eins og.. Eins og ískur í hjörum? Urður stífnaði upp, hjartað barðist ótt og títt og hún klemmdi aftur augun. Hún yrði. Hún þvingaði sig fram úr, að þröskuldinum. Stakk hausnum fram. Litla hurðin stóð opin. Við hana pínulítil vera í rauðum buxum, með rauða húfu að bisa við að klæða sig í skó. Veran leit upp. Í augnablik horfðust þau í augu. Í augnablik áður en Urður snérist á hæl og þeytti sér upp í rúm.Hjartað hamaðist. Gerðist þetta í alvöru?

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað