6. desember
Leó gengur betur í skólanum og líður almennt betur þegar hann sleppir tölvunni á kvöldin. Í gær fór hann meira að segja út í snjóinn eftir kvöldmat með fótbolta og æfði sig að halda honum á lofti í kuldagallanum.
Bekkurinn hans Leós hefur safnað nógu mörgum hrósmiðum til að halda bekkjarveislu. Eftir lýðræðislega kosningu var ákveðið að heimsækja félagsmiðstöðina eftir hádegi. Leó hleypur beint að leikjatölvunni, grípur fjarstýringu og sest í sófann, kunnuglegt merki birtist á skjánum. En þá verður honum litið að biljarðborðinu þar sem allir bestu vinir hans standa. Hann leggur frá sér fjarstýringuna og fer í staðinn að spila biljarð með vinum sínum.
Það eru íþróttir í síðasta tíma dagsins og íþróttakennarinn hefur stillt upp þrautabraut fyrir uppáhaldseltingaleik allra krakka, Tarsan-leikinn. Krakkarnir hlaupa nánast allan íþróttatímann til að flýja undan vestisklædda parinu sem er’ann. Æsispennandi leikur þar sem má sveifla sér í köðlum og hoppa yfir hindranir.
Leó kemur glaður heim og verður þá enn spenntari því í kvöld mun Grímur frumsýna leikrit og hefur boðið Kára, Leó og Kötlu að koma í leikhúsið að sjá.
Leikhúsið er komið í jólabúning, Katla telur fimm jólatré en jólakúlurnar eru óteljandi. Sætin þeirra eru framarlega og Katla sest á milli Leós og pabba síns. Dyrnar lokast, ljósin dofna og tjaldið rís. Á sviðinu er heilt heimili með stofu, eldhúsi og svefnherbergi. Í eldhúsinu er kona að útbúa mat, Grímur kemur inn á svið og kyssir konuna á munninn. Þau eru greinilega að leika hjón.
Katla hefur aldrei áður séð leikrit þar sem enginn syngur og allir eru í venjulegum fötum.
Þau eru bara að tala og Katla skilur ekki alveg af hverju einn leikarinn er alltaf að öskra á pabba hennar. Áhorfendurnir hlæja mikið, sérstaklega þegar pabbi hennar talar en Katla nær samt ekki alveg hvað er svona fyndið. Hún springur samt úr hlátri þegar pabbi hennar hellir heilum potti af súpu yfir leikarann sem öskrar svo mikið.
Í lokin klappa allir fyrir leikurunum meðan þau hneigja sig. Þegar Grímur hneigir sig stendur Katla upp og hrópar af ánægju. Leikstjórinn kemur upp á svið og svo fær allt listafólkið blómvendi. Katla er orðin þreytt í lófunum eftir allt klappið og er fegin þegar tjaldið sígur loksins niður aftur og lófatakið breytist í skvaldur. Kári tekur í höndina á Kötlu svo hún týnist ekki og leiðir hana út úr salnum.
Þökk sé Grími þá mega Katla, Leó og Kári gera svolítið sem aðrir áhorfendur mega ekki. Þau fá að fara baksviðs og hitta leikarana. Katla hleypur beint í sveitt fangið á pabba sínum og óskar honum til hamingju með frumsýninguna.
„Hvernig fannst þér leikritið?“ spyr Grímur.
„Mér fannst fyndið þegar þú helltir súpunni yfir karlinn sem var dónalegur við þig,“ segir Katla.
„Það fannst mér líka,“ segir leikarinn sem er ennþá með súpu í hárinu. „Til hamingju með frumsýninguna,“ segir hann við Grím.
„Takk sömuleiðis,“ segir Grímur og þeir knúsast. Katla starir agndofa á þá.
„Til hamingju með þetta frábæra leikrit pabbi,“ segir Leó og knúsar pabba sinn.
„Til hamingju ástin mín,“ segir Kári og kyssir Grím.
„Takk fyrir að koma, þið öll,“ segir Grímur „það er alltaf gaman að vita af kunnuglegum andlitum í salnum.“
Katla og Leó þurfa að fara heim því það er skóli á morgun, Grímur knúsar þau bæði góða nótt og Kári fer með þau heim. Listafólkið ætlar að skemmta sér í tilefni frumsýningarinnar og þess vegna verður Grímur eftir í leikhúsinu.
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.