En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

6. kafli: Stefanía numin á brott

Það liðu margir dagar áður en Pétur og Stefanía hættu sér aftur nálægt kofanum. Andlitið í glugganum hafði séð til þess.

            Úff, þetta andlit. Pétur hryllti sig við tilhugsunina. Það hafði verið grátt og hrukkótt eins og krumpaður bréfpoki. En það hafði verið augnaráðið sem vakti hjá honum mestan óhug. Hann hafði fundið það borast inn í ennið á sér og meira að segja Stefanía varð að viðurkenna að hún hafði fundið hroll skríða niður eftir bakinu. Þau höfðu ákveðið í sameiningu að það væri ekkert spennandi við þessa yfirgefnu lóð. Það væri alveg tilgangslaust að fara þangað aftur. En svo gerðist svolítið sem setti allar þeirra áætlanir úr skorðum.

            Á einni viku gerðu þrjár lægðir innrás í borgina. Þær stífluðu hvert einasta niðurfall, feyktu trampólínum á haf út og veltu meira að segja einum flutningabíl um koll. Það var í miðju svona óveðri einn seinnipartinn sem Pétur og Stefanía klæddu sig í stormfötin og héldu af stað heim úr skólanum.

            Vindurinn var svo mikill að þau hreyfðust varla úr sporunum og slyddan svo þétt að þau voru bæði orðin gegnvot áður en þau komust út af skólalóðinni. Ekki bætti hálkan á göngustígnum úr skák og krakkarnir þurftu að styðja hvort annað til að fljúga ekki á hausinn.

            Á leiðinni var brött brekka. Hún var ekki löng, varla meira en tíu skref, en þennan daginn var hún hulin þykkum klakabunka og niður hana streymdi slyddufljót. Hún hafði eiginlega breyst í jökulkalda vatnsrennibraut. Hvernig sem Pétur og Stefanía reyndu hleypti brekkan þeim ekki upp. Hún kippti undan þeim fótunum og sendi þau holdvot aftur á upphafsreit.

            „Við verðum að finna aðra leið,“ hrópaði Stefanía í gegnum veðrið.

            Pétur leit á hana. Það var bara um eina aðra leið að velja. Leiðina sem lá um yfirgefnu lóðina. En hann var farinn að skjálfa úr kulda og vildi ekkert frekar en komast sem fyrst heim í þurr föt. Ef það þýddi að þau þyrftu að laumast framhjá þessum hræðilega kofa þá varð bara að hafa það. Hann kinkaði kolli.

            Þau settu undir sig hausana og brutu sér leið í gegnum storminn að limgerðinu sem umlukti lóðina. Þegar þau voru komin í gegnum það varð ferðin strax auðveldari. Runnarnir skýldu þeim fyrir mesta vindinum en þétt slyddan birgði þeim ennþá sýn. Pétur öslaði áfram með húfuna dregna niður fyrir augun. Grjóthnullungarnir á lóðinni hreyfðust þegar hann steig á þá og hálkublettir skutu upp kollinum þar sem þeirra var síst von.

            Skyndilega heyrði Pétur óp. Hann sneri sér við og sá Stefaníu liggja á jörðinni. Yfir henni gnæfðu tvær verur. Pétur þekkti aðra þeirra undir eins. Það var ófreskjan sem ráðist hafði á hann nokkrum dögum áður. Hin veran var hávaxnari. Pétur fylgdist með í örvæntingu þegar hún þreif í Stefaníu og dró hana með sér inn í slyddukófið.


Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Tómas Zoega um Pétur og Stefaníuopnast á hverjum degi til jóla!Hver býr í kofanum? Eru allar nornir hættulegar? Fylgist með spennandi jólaævintýri Péturs og Stefaníu á hverjum degi til jóla!

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!