En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

6. Lipur læða

Guðrún hugsaði um konuna í kjallaranum allan daginn í skólanum. Í frímínútum settist hún niður á bekk á skólalóðinni og hugsaði um hvað hún gæti gert til að komast að sannleikanum. Sannleikanum um hvort konan ætti kisu. Þá komu gangaverðirnir Leppur og Skreppur skokkandi til hennar. Fæstir krakkar í skólanum þekktu muninn á Lepp og Skrepp sem voru spegilmynd hvor annars, enda tvíburabræður. Yfirleitt voru þeir góðlátlegir gangaverðir en á hverju ári í desember breyttust þeir í hrekkjótta stríðnispúka. Una umsjónarkennari sagði að það væri vegna þess að þeir væru svo spenntir fyrir jólunum. Bræðurnir sögðu hins vegar að þótt þeir væru gangaverðir í Fjallaskóla langaði þá mest af öllu að verða alvöru jólasveinar, og þess vegna höguðu þeir sér eins og jólasveinar í desember.

 „Guðrún,“ kallaði Leppur.
 „Já, Leppur,“ ansaði Guðrún. Einu sinni hafði Guðrún spurt bræðurna hvort Leppur og Skreppur væru útlensk nöfn því hún hafði aldrei heyrt þau áður. Bræðurnir höfðu sprungið úr hlátri og útskýrt að það væri fjölskylduhefð að heita undarlegum nöfnum, þeir sögðu að bróðir sinn héti til dæmis Faldafeykir. „Viltu ekki leika við krakkana?“ æpti Skreppur.
 „Nei takk,“ ansaði Guðrún. „Ég þarf aðeins að vera ein og hugsa minn gang.“
 „Ekki vera með leiðindi Guðrún,“ sagði Leppur. Svo flissaði hann og tautaði í barm sér: „Leiðindaskjóðan þín.“
 „Guðrún er sko ekki Leiðindaskjóða, Leppur,“ tautaði Skreppur og tók í hnakkadrambið á bróður sínum. Leppur bað Guðrúnu afsökunar og gangaverðirnir skakklöppuðust í burtu í átt að körfuboltavellinum.

Guðrún gekk að leikvellinum og settist í eina róluna til að hugsa málið. Guðrún hugsaði og hugsaði. Svo hugsaði hún aðeins meira. En það eina sem henni datt í hug var að njósna um konuna en mamma hafði bannað henni að njósna um nágrannana. Guðrún varð að óhlýðnast, bara í þetta eina skipti. Ef hún fengi kafloðna kartöflu yrði hún bara að sætta sig við það. Hún myndi bara sjóða hana í potti og borða með bráðnuðu smjöri. Namm, Guðrún elskaði stappaðar kartöflur með smjörsósu.

Þegar skólinn var búinn hljóp Guðrún eins hratt og fætur toguðu heim til sín. En í staðinn fyrir að ganga inn í húsið og fara í íbúðina á þrettándu hæð, gekk Guðrún á bak við blokkina. Hún fór á fjórar fætur, læddist eins og lipur læða í snjónum. Hún læddist fram hjá innganginum og í átt að gluggunum á íbúðinni í kjallaranum.

Guðrún var eins og alvöru njósnari. Hún var vel klædd svo henni yrði ekki kalt, í snjógalla, kuldaskóm og rauðu handprjónuðu ullarsokkunum frá karlinum í kjallaranum. Þegar hún nálgaðist gluggana á kjallaraíbúðinni kom hún auga á lítið furutré sem var staðsett beint fyrir framan eldhúsgluggann. Þetta var fullkominn felustaður. Guðrún settist bakvið furutréð svo enginn gæti komið auga á hana og starði inn um gluggann.

En konan var hvergi sjáanleg. Guðrún sat lengi, örugglega margar mínútur og beið. Og hún beið og beið. Skyndilega sá hún að eitthvað var á hreyfingu. Hávaxna konan gekk inn í herbergið og fór að stússast í eldhúsinu. Nú hlyti að koma í ljós hvort kisa byggi á heimilinu. Konan varð sposk á svip og Guðrún fylgdist agndofa með þegar hún leit í kringum sig og teygði hendurnar upp í eldhúshillu. Var hún að sækja köttinn sinn?

Nei.

Konan teygði sig í rauðan ullarhnykil. Svo tók hún upp tvo prjóna og hófst handa við að prjóna eldrauða ullarsokka. Guðrún varð vonsvikin. Það voru engin ummerki um kött og því engin leið fyrir hana að sanna fyrir foreldrum sínum hvað hún hafði raunverulega séð í fyrradag.

Það var dimmt úti og Guðrún vissi að mamma og pabbi yrðu bráðum hrædd um hana. Guðrún var líka orðin svöng svo hún ákvað að koma sér heim í kvöldmat. Í þann mund sem hún ætlaði að standa upp og læðast í burtu frá felustaðnum sá hún konuna nálgast gluggann með trésleif á lofti. Guðrún beygði sig svo konan kæmi ekki auga á hana og starði inn um gluggann. Þá sá hún óljósa hreyfingu inni í eldhúsi konunnar, eitthvað lítið og loðið stóð fyrir aftan konuna. Það fór ekkert á milli mála hvað þetta var.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!