Þetta var
kofi. Hann var umkringdur sölnuðum njólum og grjóthnullungum og leit afskaplega
undarlega út. Járnabindingin stakkst út úr veggjunum skökk og skæld svo það var
eins og kofinn væri þyrnóttur. Hann hallaði líka ískyggilega, eins og honum
hefði verið tyllt niður til bráðabirgða. Jörðin í kring var hvít en á kofanum
sjálfum sat ekki svo mikið sem eitt einasta snjókorn.
„Hvaðan kom þetta eiginlega?“
hvíslaði Pétur undrandi.
„Ekki hugmynd,“ sagði Stefanía.
„Lóðin var alveg auð í síðustu viku og svo – púff – nýtt hús.“
„Heldurðu að einhver eigi heima
þarna?“ spurði Pétur. Hann átti bágt með að trúa því, kofinn var allt of
hrörlegur. Hann leit út fyrir að geta fallið saman á hverri stundu.
„Ég hef ekki séð neinn,“ sagði
Stefanía. „Viltu fara og gá?“
„Eiginlega ekki.“ Pétur langaði
ekkert að hætta sér nær kofanum. Hvað ef eitthvað hræðilegt byggi þar? Eitthvað
á borð við ófreskjuna? Á móti kom að hann dauðlangaði að vita meira um þennan
kofa. Hvers vegna var hann til dæmis svona skakkur? Og hvers vegna var hann
þyrnóttur? Það hlutu að vera góðar ástæður fyrir því.
„Ég skal standa vörð á meðan þú ferð
og athugar,“ sagði Stefanía og hnoðaði snjóbolta.
„Ég veit ekki með það,“ muldraði
Pétur.
„Kíktu inn um gluggann.“
„Gerð þú það bara sjálf.“
Stefanía hikaði. „Förum bæði,“ sagði
hún svo.
Hún kreisti snjóboltann og saman
fikruðu þau sig inn á lóðina. Þau voru ekki komin langt þegar rámt gelt gall
við. Þau hrukku bæði í kút og Stefanía fleygði snjóboltanum af öllu afli í átt
að kofanum. Hann skall með miklum látum á glugganum sem þau höfðu ætlað að líta
inn um og geltið varð enn ofsafengnara.
Pétur stirðnaði upp. Ófreskjan bjó
þá þarna í raun og veru.
Svo gerðist svolítið sem fékk bæði
Pétur og Stefaníu til að taka andköf. Í glugganum birtist andlit.