En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

5. Ný flík fyrir jólin

Guðrún gat ekki sofnað um kvöldið. Hún gat ekki hætt að hugsa um það sem hún hafði séð út um gluggann. Hvers vegna hafði konan í kjallaranum faðmað kisu ef hún var skíthrædd við kisur? Ef konan var ekki hrædd við kisur þá gat hún ekki bannað Guðrúnu að ættleiða lítinn sætan kettling.

Morguninn eftir settist Guðrún með mömmu sinni inn í eldhús til að borða hafragraut.
 „Mamma, ég þarf að segja þér dálítið,“ sagði Guðrún.
 „Já vinan,“ ansaði mamma.
 „Konan í kjallaranum er ekki hrædd við kisur. Í gær faðmaði hún dökkan loðinn skugga og sagði komdu hérna kisan mín. Hún sagði kisan mín!“
 „Þér hlýtur að hafa misheyrst. Séð eitthvað annað. Það getur ekki annað verið.“
 „En ég er viss!“ hrópaði Guðrún.
 „Kannski var hún að fara út með ruslið.“
 „En mamma, hvað ef við gægjumst inn um gluggann hjá konunni í kjallaranum og athugum hvort hún eigi kisu?“
 „Kemur ekki til mála!“ ansaði mamma. „Það er dónaskapur að njósna um fólk, þú veist það? Þú verður að hætta að fylgjast með nágrönnunum og einbeittu þér nú að því að borða hafragrautinn þinn, elskan.“

Guðrún lofaði. Hún lofaði að borða hafragrautinn sinn. Hún gat ekki lofað að hætta að njósna. Pabbi hefði ekki bannað henni að njósna, hann elskaði að fara í göngutúra og gægjast örlítið inn um gluggana hjá fólkinu í Fjallahverfi. Hann sagði að það væri eðlilegt að vera forvitinn en Guðrúnu fannst þessi hegðun föður síns ögn undarleg.

En kannski þyrfti Guðrún ekki að njósna, kannski gæti hún spurt karlinn í kjallaranum um köttinn. Karlinn bjó með konunni í kjallaranum. Þau voru hjón. Þó að Guðrún væri ögn hrædd við konuna fannst henni karlinn frekar vingjarnlegur. Hún þekkti hann ágætlega. Hann var afalegur karl sem bankaði uppá hjá fjölskyldunni á þrettándu hæð á hverju ári í desember. Karlinn fór iðulega úr skónum og sokkunum þegar hann gekk inn í íbúðina og spurði svo eftir Guðrúnu. Þegar hún birtist gladdist karlinn ávallt og rétti fram pakka í fagurrauðum gjafapappír með grænni slaufu. Alltaf var pakkinn eins, og alltaf innihélt hann það sama: eldrauða handprjónaða ullarsokka. Og í hvert einasta skipti trítlaði Guðrún niður í kjallara á jóladag og þakkaði fyrir sig. Þá brosti karlinn út að eyrum og hvíslaði að Guðrúnu: „Barna-ba-barnið mitt, ö-ö-öll börn þurfa nýj-n-nýja flík fyrir jólin.“

Guðrún hrökk upp úr hugsunum sínum þegar mamma sagði henni að flýta sér af stað í skólann. „Klukkan er orðin átta,“ sagði hún. Þar sem Guðrún bjó vil hliðina á Fjallaskóla mátti hún alltaf ganga ein í skólann því mamma gat fylgst með henni út um stofugluggann.
 „Mamma,“ sagði Guðrún áður en hún fór af stað í skólann.
 „Já, gullið mitt,“ svaraði hún.
 „Hvers vegna þurfa öll börn flík fyrir jólin?“
 „Það er sagt að jólakötturinn éti öll börn sem fá ekki nýja flík fyrir jólin.“
 „Er það satt?“ Guðrún varð hissa.
„Sagan segir að ein jól fyrir óralöngu hafi börn á Íslandi verið ofboðslega þæg og öll fengið nýja flík fyrir jólin. Þá fékk Grýla engin börn að borða. Ekki jólakötturinn heldur. Svo þau eiga að hafa dáið úr hungri. Karlræfillinn hann Leppalúði varð svo leiður að hann lést við rúmstokkinn hennar Grýlu.“
 „Karlræfillinn?“ Guðrún hafði heyrt þetta orð einhversstaðar áður.
 „Já, Leppalúði á að hafa látist úr sorg. En í þjóðsögunni segir samt að ef íslensk börn verði einn daginn aftur rosalega óþekk geti gömlu hjónin og jólakötturinn lifnað aftur við.“
 Guðrún horfði skelkuð á mömmu sína.
 „Áttu við að Grýla geti snúið aftur til mannheima til að borða óþekk börn?“
 Mamma kinkaði kolli.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar
.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!