Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Jólapakki á klósettinu

Urður rumskaði. Hvaða hljóð var þetta? Eitthvað var að trufla svefninn hennar, draga hana úr draumaheimi og hún sem nennti alls ekki að vakna. Urður barðist við að opna augun. Eitthvað sem hljómaði eins og hávær hlátrasköll ómaði. Voru þetta mamma og pabbi? Að skellihlæja? Nú hrökk Urður upp. Hvað var svona fyndið?

Urður staulaðist á fætur. Hljóðin bárust frá klósettinu. Var kominn morgunn? Urður var alls ekki viss. Hún gekk á hljóðin. Í dyragættinni á baðherberginu stóð pabbi hennar hlæjandi. Inni á baði sat mamma á baðkarsbrúninni og skellihló. Eiginlega var ekki hægt að segja að hún væri sitjandi, því hún veltist um, og Urður átti erfiðast með að skilja hvernig mömmu hennar tókst að halda sér á bríkinni.

,,Jæja Urður Murður” sagði pabbi glettinn og rótaði í hárinu á henni þegar hann sá hana standa við hlið sér. ,,Það var þér til happs að mamma þín var óvenju spræk í morgunsárið og búin að opna augun þegar hún fór á klósettið. Annars hefðum við verið að skúra piss hér upp af gólfinu.” Þá sá Urður það. Klósettið var vafið inn í rauðan pappír með hvítum doppum á. Eins og jólagjöf sem átti bara eftir að setja undir tré.

Urður setti í brýrnar. Henni var ekki skemmt. Hún hafði minnst á næturævintýrin á heimilinu við nokkra vini sína. Krakkarnir höfðu hlegið. Sérstaklega þegar hún sagði þeim frá pabba sem sullaði blárri mjólk út um allt, en enginn hafði upplifað neitt svipað. Enginn virtist plagaður af hrekkjalóm sem læddist um heima hjá þeim á nóttunni. Nú hlógu mamma og pabbi að jólapökkuðu klósetti. En þau skildu þetta bara ekki. Á nóttinni var einhver að laumast um heima hjá þeim! Kannski innbrotsþjófur!?! Urður fann fyrir þungum steini í maganum. Hlátrasköllin gerðu hana reiða. Þau skildu þetta bara ekki. Þau urðu að losna við hann! Hver sem hann var. Og fyrst þau skildu þetta ekki, þá yrði Urður að ganga í málið. Hún skyldi koma þessum drillenisse út. Og það án þess að hann tæki gæfuna þeirra.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað