.

4. desember
„Leó. Leó? Leó! Viltu gjöra svo vel og vakna.“ Leó hrekkur upp og sér bekkjarsystkini sín stara á sig. „Leó, þú átt að sofa á nóttunni, ekki í tíma hjá mér,“ segir Gestur, kennarinn hans, og heldur áfram að lesa upp. Leó hafði enn einu sinni verið í tölvunni langt fram eftir nóttu og svefnleysið byrjað að hafa áhrif á skólann.

Gestur kennari útdeilir yfirförnu stærðfræðiprófi sem þau tóku fyrir viku, Leó er góður í stærðfræði en hann lærði ekki fyrir þetta próf því tölvan hafði heltekið hann, það sést á einkuninni sem er óvenju lág. Hann flýtir sér að fela prófið ofan í tösku. Gréta, besta vinkona Leós, klárar að fara yfir sitt próf og snýr sér svo að Leó.

 „Bara ein villa, hvernig gekk þér?“

 „Bara vel,“ lýgur Leó og lofar sjálfum sér að læra betur fyrir næsta próf.

Leó er dauðþreyttur allan skóladaginn, hann á erfitt með að einbeita sér í stærðfræði og sofnar í miðju snjóstríði úti í frímínútum. Í myndmennt sitja Leó og Gréta saman. Hún málar úlf sem spangólar undir fullu tungli en Leó málar bíl úr tölvuleiknum sínum. Úti í horni situr Gabríel einn og einbeittur, aðeins myndmenntakennarinn tekur eftir listaverkinu sem Gabríel er að mála. Gabríel þykir best að vera í myndmennt því kennarinn þar er sú eina sem býst ekki við hinu versta af Gabríel.

Eftir skóla býður Gréta Leó að vera með í fótbolta en hann lýgur að bestu vinkonu sinni til að komast sem fyrst heim í tölvuna.

Leó flýtir sér heim og gengur inn í tómt húsið, pabbar hans eru í vinnunni og Katla á kóræfingu.

Hann kveikir strax á tölvunni og plantar sér fyrir framan skjáinn. Hann stýrir bílnum eftir svakalegri braut sem hlykkjast gegnum stóra borg, Leó sveigir fram hjá öllum hindrunum og endamarkið er í augsýn þegar skyndilega slokknar á tölvunni og allt verður svart. Leó þreifar fyrir sér í myrkrinu og finnur farsímann sinn, kveikir á vasaljósinu og lítur í kringum sig. Hann þorir ekki að fara fram svo hann hringir í pabba sinn.

 „Kári,“ svarar pabbi hans.

 „Hæ, pabbi. Það er allt rafmagnslaust hérna heima, hvar er rafmagnstaflan og hvernig slæ ég rafmagninu aftur inn?“

 „Það þýðir ekkert núna,“ segir Kári „ég gleymdi að láta þig vita í morgun að það verður rafmagnslaust í hverfinu til klukkan fjögur í dag. Það eru einhverjar viðgerðir í gangi. Þú verður að finna þér eitthvað annað að gera en að vera í tölvunni.“

Leó líst ekkert á það og andvarpar pirraður.

 „Ég þarf að halda áfram að vinna. Ég elska þig,“ segir Kári.

 „Ég elska þig líka pabbi,“ svarar Leó.

 „Sjáumst í kvöld,“ segir Kári.

 „Já, sjáumst,“ segir Leó og skellir á. Hann situr um stund í myrkrinu og bölvar rafmagnsleysinu, síðan beinir hann vasaljósinu um herbergið í leit að einhverju skemmtilegu. Á skrifborðinu liggur teikniblokkin frá Súsí. Leó finnur pennaveskið sitt, sest við skrifborðið og stillir upp símanum svo ljósið lýsi á teikniblokkina. Hann flettir í gegnum blokkina og sér teikningar af allskonar gamaldags leikföngum, myndirnar eru allar gráar. Aftast telur Leó sex auðar blaðsíður, hann opnar pennaveskið sitt og byrjar að teikna á eina þeirra. Leó vandar sig mikið við að teikna bílinn úr tölvuleiknum og er svo einbeittur að hann tekur varla eftir því þegar rafmagnið kemur aftur á.

Leó leggur lokahönd á teikninguna, gengur frá litunum, lokar teikniblokkinni og er á leið út úr herberginu þegar hann heyrir undarlegt hljóð. Eins og einhver hafi rekist í litlar bjöllur. Bjölluhljóðin fjara út og Leó snýr sér við. Ofan á teikniblokkinni er glansandi leikfangabíll, alveg eins og sá sem Leó var að teikna. Hann hleypur rakleiðis að skrifborðinu, tekur upp bílinn og grandskoðar hann. Hann opnar teikniblokkina og sér að nýlitaða myndin hans er orðin grá.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður