En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

4. Skrímslaplantan

„Ég er með hugmynd,“ sagði mamma, „hugmynd um hvernig þú getur hætt að hugsa um kisur daginn út og inn!“

Guðrún hafði sagt mömmu að gamla konan hefði neitað því að fá kettling í húsið. Guðrún sagði henni hins vegar ekki frá furðulegu óhljóðunum sem höfðu heyrst úr íbúðinni. Pabbi hafði nefnilega bannað henni að segja nokkrum lifandi manni frá öllu því sem hún hafði séð eða heyrt.

Mamma gekk inn í stofu og kom aftur skömmu síðar skælbrosandi. „Ég ætla að gefa þér þessa skrímslaplöntu,“ útskýrði hún. Mamma var með risastóra pottaplöntu í fanginu með þykkum og fallega grænum blöðum.
 „Takk, mamma mín,“ ansaði Guðrún.
 „Skrímslaplantan þarf mikla umhyggju. Eiginlega eins og kisa.“
 „Ha? Er plantan eins og kisa?“
 „Já. Það þarf að gefa plöntunni að drekka. Það þarf líka að gefa kisum að drekka.“

Guðrún lofaði að hugsa vel um skrímslaplöntuna. Mamma hjálpaði henni að umbreyta Kósí kisuhorninu í herberginu sínu í Glæsilega gróðurhornið. Hún tók niður teikninguna af bröndótta skógarkettinum og notaði kattarbælið sem kodda. Guðrún reyndi eins og hún gat að vera þakklát fyrir skrímslaplöntuna en þótt hún væri falleg jafnaðist hún alls ekki á við kisu. Plantan var ekki loðin, hún var ekki með klær og hún gat alls, alls ekki mjálmað. Guðrún horfði á pottaplöntuna og óskaði þess að hún myndi breytast í sprelllifandi kött sem myndi kúra með henni öll kvöld.

Mamma gekk inn í herbergið og virti fyrir sér Glæsilega gróðurhornið.
„Mikið er skrímslaplantan glöð hjá þér,“ sagði mamma.
 „Geta plöntur verið glaðar?“ svaraði Guðrún. „Auðvitað, plöntur eru á lífi, alveg eins og kettir. Skrímslaplantan verður glöð ef þú talar við hana og ef þú klappar henni og ef þú gefur henni að borða. Eiginlega eins og kisa.“
 „En mamma, ef skrímslaplantan væri kisa myndi hún mala þegar hún væri glöð og mjálma á morgnana. Þess vegna er hún ekkert eins og kisa.“
 „Guðrún mín, þú verður að læra að vera þakklát fyrir það sem þú hefur.“
 „Mamma, eina sem ég vil er að ættleiða kettling fyrir jólin?“
 „Hættu þessu suði elskan...“
 „Við þurfum ekki að segja konunni í kjallaranum frá kisunni, mamma plís! Kisan verður bara hérna inni og fer ekkert út!“

Mamma hristi höfuðið og fór inn í eldhús þar sem pabbi var að elda steinbít í kvöldmat. Kettlingurinn hefði elskað kvöldmatinn, hugsaði Guðrún sem sat ein eftir í herberginu sínu.

Hún starði á skrímslaplöntuna í Glæsilega gróðurhorninu. Hún þoldi ekki plöntuna. Hvaða krakki sem var, sá alveg að skrímslaplantan var ekkert eins og kisa. Guðrún varð svo pirruð að hún gekk að plöntunni. Hún tók í hana og reif risastórt laufblað af henni. Því næst henti hún því út um opinn gluggann. Samstundis skrapp plantan saman eins og til að sýna að hún væri leið. „Fyrirgefðu,“ kjökraði Guðrún full eftirsjár. Svo leit hún út um gluggann og horfði á eftir fagurgrænu laufblaðinu svífa niður í samfloti við snjókornin sem féllu frá himnum.

En þegar laufblaðið nálgaðist jörðina sá hún glitta í hreyfingu í snjóskaflinum fyrir framan íbúðina í kjallaranum. Loðinn skuggi dansaði um í blaðhvítum snjónum. Guðrún sótti kíki sem hún geymdi í  gluggakistunni og starði niður. Konan í kjallaranum mjakaði sér út um svalardyrnar sem lágu að garðinum og haltraði í átt að skugganum. Hún muldraði eitthvað í barm sér og Guðrún sperrti eyrun.

„Komdu hérna kisan mín,“ söng konan í kjallaranum. Hún faðmaði skuggann að sér en hrökk í kút þegar laufblaðið af skrímslaplöntunni lenti á höfði hennar. Konan tók laufið af hausnum og leit upp.
 „Hver er þar?“ hrópaði konan.
 Guðrún tók andköf og flýtti sér frá glugganum. 
 
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!