Pétur þurfti
að bíða lengi eftir Stefaníu. Krakkarnir í öðrum bekk voru löngu farnir þegar
hún loksins lét sjá sig.
„Íþróttir,“ sagði hún án þess að
gefa nánari útskýringar. Hún þurfti þess heldur ekki. Pétur vissi nákvæmlega
hversu ævintýralegar sturtuferðirnar að loknum íþróttatímum gátu verið. Í rétta
félagsskapnum voru þær beinlínis stórhættulegar. Sem betur fer virtist Stefanía
hafa sloppið ósködduð í þetta sinn.
„Hvað ætlarðu eiginlega að sýna
mér?“ spurði Pétur. „Við megum ekki vera of lengi. Ég á sko að koma beint heim
eftir skóla.“
„Þetta tekur enga stund,“ sagði
Stefanía. „Þetta er eiginlega í leiðinni. Þannig rakst ég á það í gær.“
„Rakst á hvað?“
„Komdu.“
Þau höfðu ekki farið langt þegar
Stefanía sveigði út af stígnum. Það var á svipuðum stað og Pétur hafði lent í
ófreskjunni daginn áður. Hún leit flóttalega í kringum sig og stakk sér svo inn
í þétt limgerði.
„Ertu ekki að koma?“ hvíslaði hún
til hans.
Þá rann upp ljós fyrir Pétri. „Ég
veit hvert þú ert að fara,“ sagði hann æstur. „Á yfirgefnu lóðina. Hún er
hættuleg. Við getum ekki farið þangað. Sérstaklega ekki í gegnum einhverja
runna.“ Svona áttu hlutirnir ekki að ganga fyrir sig.
„Hún er ekki yfirgefin lengur,“
sagði Stefanía og stakk höfðinu út á milli greinanna. „Þar að auki hef ég oft
farið þangað og aldrei lent í neinu slæmu. Bara njólum. Svona, drífðu þig áður
en einhver sér til okkar.“
Innra með Pétri toguðust á löngunin
til að sjá það sem Stefanía hafði uppgötvað og röddin sem benti honum á hversu
hræðilega rangt það var að troða sér í gegnum runna sem vildi örugglega bara fá
að vera í friði. En að lokum sigraði löngunin.
„Jæja þá,“ sagði hann svolítið
önugur. „En við verðum að fara varlega.“
„Ég fer alltaf varlega,“ svaraði
Stefanía.
Pétur hnussaði og skreið á eftir henni
inn í limgerðið. „Ekki þegar þú kastaðir í mig ...“ Röddin dó út í miðri
setningu.
Stefanía hafði verið að segja satt.
Yfirgefna lóðin var alls ekki yfirgefin lengur. Á henni miðri stóð skrítnasta
hús sem Pétur hafði nokkru sinni augum litið.
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.