This is a test calendar and it's not possible to participate!

.

3. desember
Leó á erfitt með að vakna og þess vegna verða systkinin næstum því sein í skólann. Kennarinn er byrjuð að lesa upp þegar Katla sest hjá Margréti vinkonu sinni.

Margrét hallar sér að Kötlu og hvíslar: „Ég kláraði Ronju Ræningjadóttur um helgina.“

„Hvernig fannst þér?“ hvíslar Katla á móti.
 
„Hún var æði,“ hvíslar Margrét brosandi.

Nú geta þær loksins farið í Ronju-leik í frímínútum.

Þær hittast á leynistaðnum sínum inni í runna og leggja á ráðin.

 „Við þurfum að fara varlega ef við ætlum að komast heim í Matthíasarkastala,“ segir Katla.

„Akkuru?“ spyr Margrét með skrækróma rassálfaröddu.

Katla flissar en heldur svo áfram, „við þurfum að passa okkur að drukkna ekki í ánni og verða ekki hræddar ef við hittum grádverga eða Borkaræningja.“

 „Akkuru?“ spyr rassálfa-Margrét „

Við þurfum líka að passa okkur á skógarnorninni, hún má alls ekki sjá okkur því hún er stórhættuleg.“ Katla bendir á Ólöfu skólaliða sem hefur ekki hugmynd um að hún sé skógarnorn.

 „Akkuru gerir hún svona?“ spyr Margrét með skrækustu rassálfaröddinni.

 „Æi, rassálfur, fari þú í norður og niðurfallið,“ segir Katla og þær springa úr hlátri. Síðan leggja þær af stað í ævintýri.

Þær synda í ánni (snjó) til að æfa sig að drukkna ekki. Þær æfa sig að vera ekki hræddar við grádverga eða Borkaræningja. Þær fela sig þegar skógarnornin fer að rölta um og komast loksins óhultar upp í Matthíasarkastala. Þar hitta þær Tind, bekkjabróður sinn.

 „Sæll Skalla-Pétur,“ segir Katla „vilt þú stökkva yfir Helvítisgjána með okkur?“

Margrét flissar en Tindur er til í að vera með. Þau stökkva fram og til baka yfir Helvítisgjána í kastalanum. Þau stökkva þangað til bjallan hringir, drífa sig þá niður úr kastalanum og reyna að komast óséð inn en Ólöf tekur eftir þeim í felum.

 „Katla, Margrét, Tindur,“ kallar hún, „ég sé ykkur, bjallan er búin að hringja, drífið ykkur inn.“

Katla stendur upp og kallar, „ó, nei! Skógarnornin sá okkur, við verðum að flýta okkur áður en hún nær í systur sínar.“

Þau hlaupa hlæjandi inn en Ólöf skilur ekki neitt.

Katla átti frábæran skóladag alveg fram að hádegismat en þá kom Gabríel hlaupandi inn í matsal með kennara á hælunum, Gabríel rakst óvart í Kötlu með þeim afleiðingum að hádegismaturinn hennar datt í gólfið. Gabríel er hrekkjusvín úr bekknum hans Leós. Hann er alltaf að gera eitthvað sem hann má ekki gera og í dag var hann gripinn glóðvolgur að krota á vegg í skólanum.

Leó, Tindur og Margrét hjálpa Kötlu að þrífa upp matinn sem datt í gólfið og fylgja henni að skrifstofunni þar sem Leó hringir í Súsí. Hún kemur stuttu seinna í skærbleikum jakkafötum með hrein föt fyrir Kötlu. Súsí situr með krökkunum þangað til Katla hefur jafnað sig og fengið að borða. Katla þakkar Súsí fyrir, knúsar hana bless og flýtir sér í íþróttatíma ásamt Tindi og Margréti.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður