En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

3. kafli: Samferða í skólann

„Pétur minn, ef þú ferð ekki að drífa þig verðurðu of seinn.“ Pabbi stóð yfir Pétri í anddyrinu og fylgdist með honum basla við skóreimarnar. Þær vildu bara ekki hnýtast rétt. „Á ég að gera þetta fyrir þig?“

            Pétur hristi höfðið. Það varð bara að hafa það þó slaufurnar væru svolítið skakkar „Sjáumst,“ sagði hann við pabba.

            „Ertu ekki að gleyma einhverju?“

            Pétur leit við og sá að pabbi hélt á skólatöskunni.

            „Hvað er að, kallinn minn?“ spurði pabbi. „Vandræði í skólanum?“

            Pétur hristi höfuðið en pabbi sá alltaf í gegnum hann. Hann stundi. „Málið er bara ...“ Pétur hikaði. „Það réðst ísbjörn á mig í gær.“

            „Ísbjörn?“

            Pétur kinkaði kolli. „Á leiðinni í skólann. Hann var risastór.“ Hann hafði farið á bókasafnið og flett í gegnum nokkrar bækur um algeng skrímsli og mannætudýr. Í einni þeirra hafði hann fundið mynd af blóðugum ísbirni sem var í þann veginn að háma í sig hval. Pétur var reyndar ekki viss um að veran sem ráðist hafði á hann hafi verið hvít á litinn en það var erfitt að taka eftir svoleiðis hlutum þegar maður óttaðist um sitt eigið líf.

            „Hmm, það hljómar frekar eins og þú hafir rekist á hund.“

            „Heldurðu það?“

            „Já. Manstu ekki eftir strokuhundinum sem við hittum í haust? Hann býr hérna í næstu götu. Við erum orðnir ágætis félagar. Heyrðu,“ bætti pabbi við. „Við verðum bara samferða í skólann í dag. Hvað segirðu um það?“

            Kannski var það besta lausnin. Ófreskjan var hræðileg og pabbi var alls ekki sem verstur. Í sömu mund var bankað á dyrnar. Pabbi opnaði.

            „Ö, á Pétur heima hérna?“ sagði rödd Stefaníu.

            „Já, hann býr hér,“ sagði Pétur og gægðist framhjá pabba.

            „Viltu verða samferða í skólann?“ spurði hún.

            Pétur hafði reyndar ákveðið að tala aldrei aftur við Stefaníu. Ekki eftir að hún hafði sagt að skólataskan hans liti út eins og ruslatunna.

            En stundum var allt í lagi að skipta um skoðun.

            „Ókei,“ sagði hann.

            „Ég get enn fylgt ykkur ef þið viljið,“ sagði pabbi vongóður.

            Pétur leit á Stefaníu sem yppti öxlum. „Því fleiri því betra,“ sagði hún.

            Þau gengu niður stíginn sem lá að skólanum og í þetta skiptið bólaði ekkert á ófreskjunni. Pabbi kvaddi þegar þau komu inn á skólalóðina.

            „Heyrðu,“ sagði Stefanía þegar pabbi var horfinn úr augsýn. „Ertu nokkuð að fara að gera eitthvað eftir skóla?“

            „Ég held ekki.“ Pétur velti fyrir sér hvort kvöldmaturinn teldist með.

            „Snilld. Hittu mig þá hérna eftir síðasta tímann. Ókei? Ég þarf að sýna þér svolítið ótrúlegt.“

            Í sömu mund hringdi skólabjallan og þau hröðuðu sér inn.


Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Tómas Zoega um Pétur og Stefaníuopnast á hverjum degi til jóla!Hver býr í kofanum? Eru allar nornir hættulegar? Fylgist með spennandi jólaævintýri Péturs og Stefaníu á hverjum degi til jóla!

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!