En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

3. „Karlandskotinn hann faðir þinn!“

Konan í kjallaranum sendi Guðrúnu stingandi augnaráð. Hún rétti úr sér. Guðrún tók í fyrsta sinn eftir hversu gríðarlega hávaxin konan var í raun og veru, hún var örlítið ógnvænleg.

 „Snautaðu heim til þín krakkaskratti!“ hrópaði konan.
 Guðrún steinþagnaði. Hún vildi ekki ergja konuna enn frekar. Kannski myndi konan gera eitthvað hræðilegt við Guðrúnu ef hún yrði reiðari. Þess vegna forðaði Guðrún sér í átt að stiganum. Þegar hún steig upp fyrsta þrepið var þögnin rofin að nýju.
 „HALTU KJAFTINUM Á ÞÉR LOKUÐUM!“ kallaði konan inn í íbúðina.
 
Guðrún sneri sér við í stiganum og horfði spurnaraugum á konuna.
 „Hunskastu! Þú veist hvað kemur fyrir óþekktaranga í desember!“

 Guðrún vissi það vel. Árið áður höfðu hún og Sunna sessunautur hennar nefnilega gert dyraat hjá Unu umsjónarkennara. Bekkjarsysturnar höfðu hlegið dátt að prakkarastrikinu en séð eftir því næsta dag þegar þær fengu hvor sína kafloðnu kartöfluna í skóinn. Guðrún sagði ekkert við konuna í kjallaranum en sneri sér við og gekk rösklega upp tröppurnar.

Konan kallaði á eftir Guðrúnu: „Segðu karlandskotanum honum föður þínum að ég biðji að heilsa!“ Svo skellti hún aftur dyrunum svo fast að það bergmálaði um alla blokkina.

Guðrún tók á sprett. Hún spretti upp allar þrettán hæðirnar eins og hún ætti lífið að leysa. Þegar hún staðnæmdist á stigapallinum á þrettándu hæð náði Guðrún varla andanum. Hún opnaði dyrnar, gekk inn og læsti á eftir sér.
 „Sæl, elskan mín,“ sagði pabbi yfirvegaður þegar Guðrún gekk inn í íbúðina.
 „Ég ætla ekki að ættleiða kettling,“ hvíslaði Guðrún stjörf.
 „Bannaði konan þér að ættleiða kettling?“
 
„Já,“ hvíslaði Guðrún, „og ég held hún sé að fela eitthvað hræðilegt leyndarmál í kjallaranum.“ „Heldurðu það?“ spurði pabbi taugaóstyrkri röddu.
 „Já, kannski er konan norn eða kannski fangar hún litla krakka og breytir þeim í skratta!“

Pabbi leit alvarlegum augum á Guðrúnu og sagði: „Ef þú heldur einhvern tímann að konan ætli að gera þér mein, þá skaltu segja mér og engum öðrum.“
 „En, er þú ekki skíthræddur við hana?“
 „Jú,“ viðurkenndi pabbi, „ en þú ert barnið mitt og ég geri hvað sem er til að passa upp á þig!“

Mamma kom út úr eldhúsinu og starði á feðginin: „Hvað eru þið að ræða svona alvarleg á svip?“ spurði hún.
 „Við erum að pæla í því hvort konan í kjallaranum sé norn, “ muldraði Guðrún.

Mamma hristi höfuðið og sagði: „Þið eruð nú meiri bullukollarnir bæði tvö.“ Svo skellihló hún og fór aftur inn í eldhús.

Pabbi leit alvarlegum augum á Guðrúnu og hvíslaði: „Þú ert of ung til að skilja þetta.“ Guðrún starði á föður sinn. Hann leit undan.
 „Pabbi, veistu hvað konan í kjallaranum er að fela?“
 „Eitt get ég sagt þér mannsbarnið mitt,“ hvíslaði pabbi, „þú mátt ekki segja nokkrum lifandi manni frá því sem þú heyrðir eða sást.“
 
Guðrún starði stjörf á föður sinn og kinkaði kolli.
 „Ef þú segir frá, gæti konan gert eitthvað hroðalegt!“                                                                                   

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!