Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Blá mjólk

,,Voru stríðnisálfar á ferðinni hjá öðrum en okkur?” kallaði pabbi úr eldhúsinu. Urður var enn í herberginu sínu að klæða sig. Hún svaraði ekki. Hún hafði ekki spurt neinn, en hún nennti ekki að útskýra það fyrir pabba sínum. Þegar hún gekk fram gjóaði hún augunum í átt að hurðinni. Það fór ekkert á milli mála. Hurðin litla var enn á sama stað. Urður hraðaði sér framhjá.

Urður var svo heppin að hafa farið í heimsókn til ömmu eftir skóla í gær. Og þegar hún kom heim, var of seint að fara í hurðaskoðun. Hún hafði svolítið verið að vona að þessi hurð myndi bara hverfa. Svona púff yfir nótt. Alveg eins og hún kom.

Urður hlammaði sér fyrir framan pabba sinn. Í sömu andrá datt henni svolítið í hug..

,,Pabbi, er ekki þriðjudagur?” Urður var spennt. Pabbi leit kíminn á hana og kinkaði kolli. Hún mátti ekkert vera að því að velta lítilli hurð fyrir sér. Þriðjudagsmorgnar voru nefnilega bestu morgnarnir. Þá voru þau pabbi bara tvö heima og hún fékk stundum að blanda góða múslíinu út í hafragrautinn. Þessu sem átti bara að vera um helgar. Urður hljóp í skápinn, greip pakkann, setti upp sitt allra besta bros og leit vonaraugum á pabba sinn.

Hann brosti til baka og blikkaði hana. Hann þurfti ekkert alltaf að nota orð til þess að Urður vissi að hann meinti já. Hún brosti á móti. Út að eyrum.

Í næstu andrá spratt pabbi á fætur. Hann var í miðjum klíðum við að hella mjólk, sem skvettist út um allt borð. Pabbi saup hveljur. ,,Hva? Hva?” kvakaði hann og horfði á allt sullið. Hann leit undrandi á Urði. Svo aftur á borðið. ,,Urður?!”

Augun á Urði höfðu stækkað um helming við brussuganginn í pabba. Loks sá hún hvað hafði ollið uppþotinu. Um borðið, og gólfið, flæddi blár vökvi. Mjólkin, sem pabbi hafði skvett svo glæsilega út um allt, var blá.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað