This is a test calendar and it's not possible to participate!

.

2. desember
Það er Katla sem man eftir að kveikja á fyrsta aðventukertinu, Spádómskertinu. Hún fær hjálp frá Kára pabba sínum sem fer svo inn í eldhús að aðstoða manninn sinn við að laga kvöldmatinn. Súsí frænka kemur í kvöldmat.

Súsí er föðursystir Gríms og uppáhaldsfrænka systkinanna Kötlu og Leós. Hún heitir fullu nafni Súsanna Íris Einarsdóttir en er alltaf kölluð Súsí. Hún var einu sinni gift manni sem hét Guðmundur en hann var alltaf kallaður Gvendur. Þau hjónin voru mjög ævintýragjörn og voru alltaf á einhverjum ferðalögum.

Fyrir 20 árum fluttu foreldrar Gríms ásamt yngri systkinum hans til Svíþjóðar, þá fékk hann að búa hjá Súsí og Gvendi svo hann gæti gengið í skóla á Íslandi. Katla og Leó, þekkja Gvend í gegnum sögurnar hennar Súsíar en hann lést áður en þau fæddust. Súsí elskar að segja sögur og ævintýri. Hún trúir á álfa og drauga og stundum gerist hún norn og les í lófa eða tebolla. Einu sinni vildi Katla láta lesa í bollann sinn en teið var svo vont á bragðið að Súsí las í kakóbolla í staðinn. „Þú átt eftir að verða hetja í ótrúlegu og stórkostlegu ævintýri,“ sagði Súsí þá um leið og hún sneri bollanum. Síðan hefur Katla verið dugleg að lesa ævintýrabækur svo hún verði örugglega tilbúin þegar ævintýrið hefst.

Súsí mætir tímanlega í kvöldmat. Hún er klædd í sægrænan kuldagalla og skartar fjólubláu hári. Hún heilsar Grími, Kára og Kötlu og tekst einnig að láta Leó hætta í tölvunni. Hún færir Leó pakka þar sem leynist gömul og notuð teikniblokk.

 „Takk Súsí,“ segir Leó.

 „Verði þér að góðu. Katla, þú færð líka pakka, en bara seinna,“ lofar Súsí.

Þau setjast öll við matarborðið og Súsí segir þeim söguna af því þegar Gvendur heitinn fann teikniblokkina.

 „Fyrir 47 árum, vorum við Gvendur saman í fuglaskoðunarklúbbnum Álkunum, við vorum öll algjörir furðufuglar. Bara nokkrum vikum eftir brúðkaupið okkar Gvends fór klúbburinn í ferðalag eftir suðurlandi, það var stutt í jólin og Álkurnar vildu taka góðar jólakortsmyndir af fuglum í vetrarbúningi. Ég fór ekki með því ég var á fullu að æfa fyrir eins manns óperu sem ég hugðist sýna á aðfangadag.

Hópurinn var nýstiginn út úr rútunni þegar Gvendur sá einhverja hreyfingu uppi á Mýrdalsjökli. Hann Gvendur var alltaf svo forvitinn en líka svakalega utan við sig, þessi elska. Hann lagði af stað í átt að jöklinum og kvaddi hvorki kóng né prest … eða klúbbinn. Hann óð snjó í heilan klukkutíma áður en hann komst loksins að rótum Mýrdalsjökuls. Hann Gvendur átti erfitt með að klífa jökulinn vegna gönguskónna. Þeir voru svo ofgengnir að sólarnir voru orðnir rennisléttir.

En hann Gvendur minn dó ekki ráðalaus, hann tók upp úr töskunni sinni hárburstana sína og batt þá undir skóna. Sjáið til, hann notaði alltaf tvo hárbursta og tvo tannbursta til að vera sneggri að bursta á morgnana. Hárburstana hafði Gvendur alltaf meðferðis því hann vildi halda hárinu fínu. Þetta var eini dagurinn sem Gvendur hafði hárið í rugli, dagurinn þegar hann notaði hárbursta til að klífa Mýrdalsjökul.

Þegar upp var komið blasti við honum heil víðátta af snjó og klaka. Gvendur fór að horfa eftir einhverri hreyfingu, sá enga en rak þá augun í fótspor á jöklinum. Þetta voru spor eftir stór stígvél. Gvendur fylgdi sporunum sem hlykkjuðust um allan jökulinn, upp á skafla og yfir sprungur. Allt í einu hurfu sporin en hvergi var maður sjáanlegur. Í snjónum þar sem sporin hurfu lá þessi gamla teikniblokk. Gvendur tók blokkina með sér af jöklinum og kom með hana heim. Hún hefur verið í kassa heima hjá mér í 47 ár.

Ég fann hana í síðustu viku og nú vil ég gefa þér hana, Leó, í þeirri von að þú notir hana. Ef þú opnar blokkina þá sérðu að einhver hefur teiknað heilmikið í hana en ekki voru það við Gvendur. Aftast í blokkinni eru ennþá nokkrar auðar blaðsíður sem ég vil að þú fyllir með þínum teikningum.“

Seinna um kvöldið leggur Leó teikniblokkina á skrifborðið sitt og kveikir svo á tölvunni í stað þess að fara að sofa.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður