En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

2. Óhljóð í kjallaranum

Tennurnar í pabba glömruðu.

 „Uuu, konan í kjallaranum er... hún er dálítið hræðileg, finnst þér ekki?“ umlaði pabbi.
 „Hún er bara ósköp eðlileg eldri kona.“ Guðrún horfði hissa á föður sinn. „Ég get talað við hana og beðið um leyfi fyrir kettlingnum.“
 „Góð hugmynd,“ ansaði mamma.
 „Ó, nei!“ hrópaði pabbi. Hann leit flóttalega í kringum sig og hvíslaði: „Hún má allavegana ekki vita að ég er heima!“

Guðrún skildi ekkert í pabba sínum. Pabbi hennar var eiginlega ekki hræddur við neitt. Hann var ekki hræddur við eitraðar köngulær í útlöndum, ekki hræddur við rottuna sem bjó í þarnæsta húsi og hann var heldur ekki hræddur við geitungana sem fluttu alltaf á svalirnar þeirra á sumrin. Það eina sem hann var hræddur við var konan í kjallaranum.

 Guðrún lét hræðslu föður síns ekkert á sig fá, gekk niður stigaganginn og bankaði ákveðið á hurðina í kjallaranum. Stuttu seinna birtist konan í dyragættinni.

 „Sæl, unga dama,“ sagði konan rámri röddu.
 „Sæl, eldri kona,“ ansaði Guðrún.
 „Hví bankarðu hér?“
 „Ég ætlaði að spyrja þig að dálitlu.“
 „Lát heyra vesalingurinn minn!“
 „Er allt í lagi ef ég ættleiði lítinn sætan kettling?“
 „Kisu? Ertu algjörlega gengin af göflunum?!“ hvæsti kerlingin.
 „Nee... ég...,“ stamaði Guðrún.
 „Nei!“ Konan greip fram í og hrópaði, „svarið er nei! Engin dýr í mínum hús...!“
 
En konan náði ekki að klára, ógurlegt óhljóð yfirgnæfði hróp hennar, það hljómaði eins og einhver hefði sett tígrisdýr í þvottavél.
 „Hv-hv-hvaða hljóð var þetta?“ spurði Guðrún full grunsemda. Guðrún starði stjörf á konuna og tók skref aftur á bak.
 „Þetta var ekkert!“ æpti konan.
 „En...“
 „Þetta var bara karlræfillinn hann maðurinn minn,“ tautaði konan og bætti við: „Hann er nú líkari skepnu en karlmanni.“ Konan hló.
 „Hvað er skepna?“
 
„Skepna er dýr auðvitað. Auðvitað! Hvers konar spurningaflóð er þetta STELPU...?“ Aftur náði konan ekki að klára. Óhljóðið var hærra en áður nú hljómaði það eins og að inni í íbúðinni væru alvöru ófreskjur að spúa eldi. Guðrún gapti. Það fór ekkert á milli mála að óhljóðið kom ekki frá manneskju.  

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.     

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!