Það heyrðist
skellur og ljósastaurinn sem Pétur hélt í lék á reiðiskjálfi og snjó rigndi
yfir hann. Áður en honum tókst að átta sig á því hvað hafði gerst þeyttist snjóbolti
utan úr myrkrinu og hæfði hann beint í magann.
„Á!“ missti hann út úr sér.
Glitrandi augun námu sem snöggvast
staðar en tóku svo á rás í átt til hans.
Pétur æpti aftur upp yfir sig en
ópið var varla komið fram á varirnar þegar hann sá að þetta voru alls engin
augu. Þetta voru endurskinsmerki og þau voru svo sannarlega ekki hluti af
neinni ófreskju. Í það minnsta ekki ófreskju af mannætugerðinni.
„Ó, fyrirgefðu,“ sagði eigandi
endurskinsmerkjanna og kraup hjá Pétri. „Ég hélt að þú værir ruslatunna. Ég
ætlaði sko alls ekki að kasta í þig. Það var alveg óvart.“
Snjóboltakastarinn var stelpa. Pétur
kannaðist eitthvað við hana. Jú, alveg rétt. Þetta var stelpan sem hafði
byrjaði í bekknum fyrir ofan hann í haust þó að þau væru jafngömul. Pabbi hafði
sagt að það væri vegna þess að hún hefði alist upp í útlöndum þar sem skólinn
væri aðeins öðruvísi.
„Hei, búum við ekki í sömu götu?“
spurði stelpan. Pétur umlaði eitthvað ofan í hálsmálið á úlpunni sinni.
„Ha?“
„Jú,“ muldraði hann án þess að líta
upp.
„Hvað heitirðu eiginlega? Ég er
Stefanía.“
„Ókei,“ muldraði hann.
„Talaðu hærra,“ skipaði hún.
„Pétur,“ sagði Pétur og áræddi
loksins að líta upp. „Við þurfum að koma okkur í burtu,“ bætti hann
skjálfraddaður við. „Það er ófreskja hérna einhvers staðar í felum.“
„Það eru ekki til neinar ófreskjur,“
sagði Stefanía stuttaralega.
„Ekki það?“ Pétur klöngraðist á
fætur. „Hvað réðst þá á mig rétt áðan, ha?“
„Ég.“ Stefanía hnoðaði annan
snjóbolta og Pétur brá hendi fyrir höfuðið. Hún stundi „Slappaðu af,“ sagði hún
pirruð. „Ég er búin að segja þér það. Ég ætlaði ekkert að kasta í þig, ég hélt
bara að þú værir ruslatunna. Skólataskan þín lítur alveg eins út.“
„Hún gerir það ekki,“ sagði Pétur
reiðilega.
„Sami litur,“ sagði Stefanía og
þrumaði snjóboltanum í næsta tré þar sem hann sprakk í þúsund mola. „Ertu ekki
annars að koma? Þú veist að skólinn er að byrja.“
Pétur var við það að hreyta
einhverju í hana þegar honum varð hugsað til ófreskjunnar.
„Jú,“ sagði hann fýlulega og
staulaðist af stað á eftir Stefaníu. Ruslatunna? Þvílík móðgun.