Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Hafraslóðin

,,Það er haframjöl hér út um öll gólf!” heyrði Urður mömmu hrópa fram á gangi. Urður hentist á fætur. Það var rétt. Kannski svolitlar ýkjur að það væri út um öll gólf, en það var haframjöl á gólfinu. Í fínni slóð frá skúffunni þar sem haframjölið var geymt að litlu hurðinni á veggnum. Hún var þarna ennþá. Litla hurðin. Og skórnir. Jafn snyrtilegir með hælana upp að vegg. En voru þeir ekki á öðrum stað en í gær?

,,Það er nú spennandi að það sé lítill, stríðinn jólaálfur hér á heimilinu. Okkar eigin drillenisse. Ætli það hafi drillenisser flutt inn til annarra en okkar?” Pabbi brosti og fékk sér meiri graut. ,,Þú kannski kemst að því í skólanum í dag.” hélt hann áfram, glotti yfir hafragrautinn og blikkaði hana. Urður vissi ekki hvað hún átti að halda. Var hann að stríða henni? Hafði hann búið til hurðina á vegginn? Þau mamma? Mamma hafði sannarlega hljómað hissa í morgunn, þegar hún hljóðaði upp yfir sig vegna haframjölsins. Þau höfðu bæði virst hissa í gær útaf hurðinni. En kannski voru þau bara búin að æfa sig. Voru að leika?

Urður yrði að skoða þessa hurð betur. Það þýddi ekkert lengur að halda sig í fjarlægð frá henni. Var hún máluð á? Límd? Hurðin leit bara svo ekta út að hún kærði sig ekkert um að fara að pota í hana. Hvað ef mamma hennar og pabbi væru ekki að stríða og það byggi álfur þarna inni? Hún yrði að skoða þessa hurð betur.

,,Urður. URÐUR” Urður hrökk við. ,,Já?” ,,Ætlar þú að stara á hurðina í allan dag? Þú verður að klæða þig svo þú náir eitthvað að borða fyrir skóla vinkona.”

,, Já. Já, já” Urður staulaðist inn í herbergi. Það yrði að bíða þar til eftir skóla að skoða þessa hurð nánar. Þótt hún vildi varla viðurkenna það, ekki einu sinni fyrir sjálfri sér, þá var hún fegin. Hún gæti látið það bíða aðeins lengur að kanna hurðina. Og hver vissi? Kannski yrði hurðin horfin að skóladeginum loknum.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað