This is a test calendar and it's not possible to participate!

.

24. desember
Grýla vaknar við að bælið hennar lýsist upp líkt og sólin hafi skriðið inn til þeirra Leppalúða. Á náttborðinu liggur bókin um leyndardóma jólanna og jólaandakristallinn lýsir núna sterku gulu ljósi. Það þýðir að ekki þurfi að hafa miklar áhyggjur af jólaandanum því trú mannfólksins sé orðin nokkuð sterk, þó þau gætu þurft áminningu um kærleik. Grýla og Leppalúði dansa af kæti yfir styrkleika jólaandans. Þau njóta þess að dilla sér í tómum hellinum og hlakka til rólegra jóla.

Forseti Íslands vaknar þennan aðfangadagsmorgun og vill byrja daginn á smá göngutúr. Hann klæðir sig í litríka sokka, fer í úlpu og setur buff á hausinn. Honum verður þá litið á skóhilluna þar sem blómvöndur stendur upp úr einum skónum hans og annar blómvöndur liggur í skó eiginkonu hans. „Þetta er undarlegt,“ segir hann við sjálfan sig og finnur vasa fyrir vendina. Síðan klæðir hann sig í blómlausa skó og arkar í átt að jólaljósaþyrpingu.

Mannfólkið vaknar eitt af öðru og finnur óvænta blómvendi í skónum sínum. Flestir eru glaðir og margir geta ekki annað en trúað á töfra þegar enginn nákominn vill kannast við að rækta sumarblóm í leyni. Fólk með frjókornaofnæmi er þó misglatt og mörg þurfa að grafa upp ofnæmislyfin úr lyfjaskápnum svo þau hnerri ekki yfir jólasteikina.

 „Grýla er viral,“ segir Leó þegar hann arkar niður stigann með símann í hendinni. „Myndbandið af henni að bjarga okkur er út um allt,“ segir hann og sýnir pöbbum sínum og Kötlu stutt brot úr myndbandinu.

 „En skemmtilegt,“ segir Kári.

 „Eru engin myndbönd af fljúgandi lestinni sem skutlaði okkur heim í gær?“ spyr Grímur.

 „Nei, ekki ennþá,“ segir Leó og stingur símanum í vasann.

Hann sest við eldhúsborðið og fær sér morgunkorn með mjólk, honum verður litið á tréð í stofunni og sér stóra pakkahrúgu undir því.

 „Þegar þið eruð búin að borða megið þið fara upp og klæða ykkur í snyrtileg föt því við ætlum að fara til Súsíar í möndlugraut,“ segir Grímur brosandi.

Hann er mjög glaður að sjá fjölskylduna loksins sameinaða á ný. Hann lítur brosandi á börnin sín og á eiginmann sem hann missti næstum því. Fjölskyldan getur loksins haldið venjuleg jól. Þau rölta yfir til Súsíar í möndlugraut þar sem Leó fær möndluna og þar af leiðandi einnig möndlugjöfina. Í ár er hún spil sem þau geta spilað seinna um kvöldið. Systkinin fara svo með Súsí í kirkjugarðinn að heimsækja leiði Gvends meðan pabbarnir fara heim að undirbúa jólamatinn. Rétt fyrir klukkan sex hlusta þau á þögnina í útvarpinu en í stað þess að heyra bjöllur klingja á slaginu er útsendingin rofin.

 „Við rjúfum þessa útsendingu vegna þess að gos er hafið í Kötlu,“ þulurinn í útvarpinu. Kári stekkur inn í stofu og kveikir á sjónvarpinu.

 „Tilkynning barst frá Veðurstofu Íslands rétt í þessu. Gos hófst í Kötlu undir Mýrdalsjökli fyrir um 15 mínútum. Rýmingaráætlun Almannavarna hefur verið virkjuð og er fólk beðið um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöð í húsnæði Rauða krossins að Eyrarvegi á Selfossi …“ Fréttakonan þagnar og ber fingurinn upp að eyranu.

 „Bíðið augnablik, það voru rétt í þessu að berast fregnir af kraftaverki. Símtölum hefur rignt inn til Ríkisútvarpsins og Rauða krossins frá fólki sem vill rétta fram hjálparhönd og bjóða þeim sem þurfa að yfirgefa heimili sín að dvelja hjá þeim yfir jólin. Fólk hefur safnast saman hjá fjöldahjálparstöðinni með jólapakka fyrir börnin og heimboð fyrir jólin. Þetta myndband var að berast frá Kristbjörgu sem býr á Selfossi.“

Á skjánum birtist myndband af hópi spariklædds fólks sem syngur saman jólalög fyrir utan fjöldahjálparstöðina á Selfossi.

 „Þetta er sannkallaður jólakærleikur á ferð. Á þessum góðu fréttum lýkur þessum aukafréttatíma, fréttavefurinn okkar verður uppfærður reglulega í kvöld og nótt.

 “ Kári slekkur á sjónvarpinu, þau setjast spariklædd við borðið og borða æðislegan lambahrygg með meðlæti og laufabrauði. Þau skiptast á gjöfum og njóta samverunnar.

Í Bæjarhelli grilla jólasveinarnir bjúgu, hangilæri og fleira góðgæti yfir opnum varðeldi. Þeir sitja saman allir þrettán, dást að jólaljósum og vorkenna Grýlu og Leppalúða að missa af þessari veislu.

En fyrir utan Grýluhelli sitja Leppalúði og Grýla hin ánægðustu í kyrrðinni með sviðakjamma og rófustöppu. Þau skála í mysu og horfa á öskuský rísa upp úr jöklinum. Á náttborði Grýlu liggur bókin Leyndardómar jólanna ennþá og jólaandakristallinn er nú orðinn skær grænn. Mannfólkið trúir á jólin og kærleikann, þau munu ekki gleyma því næstu árin.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.


Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður