En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

24. kafli: Jólaboð

Foreldrar Péturs og Stefaníu höfðu ekki orðið allskostar ánægðir með söguna sem krakkarnir höfðu sagt þeim um norn og fljúgandi eldhús. En þá hafði amma skorist í leikinn og bjargað málunum.

            „Við Alla erum gamlar skólasystur og þó að hún sé norn þá er hún hið besta skinn. Það er ekki eins og við búum í Grimmsævintýri,“ sagði hún og skildi foreldrana eftir á gati.

            Pétri fannst enn ótrúlegt að nornin og amma skyldu þekkjast. Hvað þá að þær hefðu verið saman í skóla fyrir langa löngu. Það hljómaði stórfurðulega en miðað við allt sem gerst hafði síðustu vikurnar gæti það svo sem vel verið.

            Þegar aðfangadagur loksins rann upp biðu tvö umslög merkt Pétri á gólfinu fyrir neðan bréfalúguna. Jólakort! Hann varð himinlifandi. Hann hafði aldrei áður fengið jólakort sem ætluð voru honum einum og engum öðrum. Yfirleitt voru kortin merkt pabba og hann beðinn um að skila kveðju til Péturs.

            Pétur sótti bréfahníf og opnaði umslögin varlega. Það fyrra var frá Stefaníu. Það innihélt glæsilega glimmerskreytt kort með listilega teiknaðri mynd af Lubba. Hann fylltist gleði og hengdi það upp á vegg við hliðina á rúminu sínu með kennaratyggjói. Seinna kortið var frá norninni. Það hljómaði svona:

 

Kæru krakkar,

það verður jólaboð hjá mér í dag. Petrína mætir líka. Við ætlum að borða möndlugraut. Hann verður borinn á borð klukkan tólf og ekki verður skilinn eftir afgangur handa seinum gestum.

Kveðja,

nornin í bílskúrnum.

 

Pétur leit á klukkuna. Hana vantaði fimm mínútur í. Í sömu andrá var bankað á útidyrahurðina. Fyrir utan stóð Stefanía með hálfgreitt hárið og bisaði við að renna upp úlpunni.

            „Fékkstu líka kort frá Aðalheiði?“ spurði hún óðamála.

            Pétur kinkaði kolli.

            „Hún er alveg að verða tólf. Drífðu þig!“

            „Pabbi, ég er að fara til nornarinnar,“ kallaði Pétur um leið og hann hljóp út um dyrnar.

            „Farðu varlega ...“ byrjaði pabbi en hurðarskellurinn yfirgnæfði rödd hans.

            Svo hlupu þau Stefanía sem fætur toguðu og staðnæmdust ekki fyrr en þau stóðu fyrir framan bílskúr nornarinnar. Stefanía bankaði og dyrnar opnuðust hægt. Fyrir innan stóð nornin, nornarlegri en nokkru sinni, og framhjá henni liðaðist ilmur af glænýjum möndlugraut og kirsuberjasósu.

            „Á slaginu,“ sagði hún og hleypti þeim inn. „Alveg eins og venjulega.“

            Amma var þegar mætt og sat við hefilbekkinn og Lubbi fagnaði krökkunum eins og hann hefði ekki séð þau í mörg ár.

            „Það er bara ein mandla í felum,“ sagði nornin þegar hún hafði skipt grautnum jafnt í fimm skálar. „Passið ykkur að gleypa hana ekki ef þið finnið hana. Annars verður engin möndludrottning þetta árið. Eruð þið tilbúin?“

            Pétur og Stefanía kinkuðu ákaft kolli og Lubbi slefaði yfir skálina sína af miklum móð.

            „Jæja, þá er komið að því. Þrír, tveir, einn, nú!“


Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.


Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Tómas Zoega um Pétur og Stefaníuopnast á hverjum degi til jóla!Hver býr í kofanum? Eru allar nornir hættulegar? Fylgist með spennandi jólaævintýri Péturs og Stefaníu á hverjum degi til jóla!

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!