En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

24. Hinn sanni jólaandi

„Forðið ykkur,“ hrópaði Guðrún, „Grýla ætlar að éta ykkur!“
Sunna sessunautur stóð fremst í flokki fylkingarinnar. Hún lyfti hendi sinni á loft, benti í átt að Guðrúnu og kallaði: „ÁRÁS!“
Guðrún spretti af stað inn í hellinn, inn í reykmökkinn. Allir krakkarnir eltu.
„Komiði hingað börnin mín!“ söng Grýla.

Guðrún hafði hlaupið beint í flasið á Grýlu. Hún hafði leitt öll börnin í Fjallahverfi að barnétandi tröllskessunni.
Grýla stóð glettin á svip fyrir framan pottinn sinn, risastóra pottinn sem hafði áður verið í eldhúsinu í kjallaraíbúðinni. Grýla hrærði í pottinum með jólaköttinn malandi við fætur sér. Leppalúði faldi sig fyrir aftan pottinn og flissaði.

„Komiði hingað öll til mín,“ söng Grýla.
Guðrún byrjaði að kjökra. Hún hafði skemmt jólin. Hún hafði skemmt allt. Það var henni að kenna að öll börnin í Fjallahverfi yrðu brátt hráefni í barnasúpu.
Grýla hló. „Nú fáið þið að finna hinn sanna jólaanda!“ endurtók hún í sífellu.

Guðrún leit í átt að tröllahjúunum og svo á börnin. Hjúin tóku höndum saman og lyftu pottinum eins hátt og þau gátu. Hvað voru þau eiginlega að gera? Þau hvolfdu úr pottinum. Guðrún fann hlýjan straum leika um líkama sinn. Hin börnin veinuðu og öskruðu. Skyndilega fylltist hellirinn af vökva. Börnin þeyttust með straumnum. Guðrún fann fiðring í maganum. Hún fann spenning og byrjaði að hlæja. Henni fannst hún vera komin í jólabað með fína baðsaltinu hennar mömmu og góða fjólubláa sjampóinu. Straumurinn fleytti Guðrúnu áfram eins og í rennibraut. Fyrr en varði hafði vökvinn í pottinum umbreyst í eins konar sundlaug inni í hellinum. Öll börnin svömluðu þar um. Þau voru hætt að veina. Öskrin höfðu breyst í hlátrasköll. Guðrún trúði ekki sínum eigin eyrum. Börnin skríktu af gleði og skælbrostu.

„Þetta eru bestu jól sem ég hef nokkurn tímann upplifað!“ hrópaði Sunna sessunautur. Hún synti í átt að Guðrúnu, faðmaði hana og sagði: „Þú ert besta vinkona í heiminum!“
„En, hvað með stríðið gegn jólasveinunum?“                                                                                                                                                                                        
„Æ, ég er hætt við,“ útskýrði Sunna og bætti við: „Kannski kom eitthvað hræðilegt fyrir Gluggagægi og hann gat ekki gefið í skóinn.“

Guðrún horfði undrandi á skólafélaga sína. Bekkjarsystkini busluðu um og föðmuðust. Þau höfðu gleymt stríðinu gegn jólasveinunum. Gleymt reiðinni yfir því að Gluggagægir hafði ekki gefið þeim gjöf í skóinn.

Grýla og Leppalúði óðu fram hjá börnunum, þau námu staðar hjá Guðrúnu.
„Ætli þið núna að éta börnin?“
Hjúin skelltu upp úr.
„Nei, Guðrún mín,“ útskýrði Grýla, „við erum löngu hætt að borða mannsbörn.“
„Löngu, löngu, löngu!“ ítrekaði Leppalúði.
„Hvað var eiginlega í pottinum?“ spurði Guðrún.
„Ég sagði þér það margoft!“ Grýla leit stolt á Guðrúnu og sagði: „Elsku tröllabarnið mitt, í áratugi hef ég reynt að brugga þennan anda, þennan jólaanda sem bjargað gæti gjafasýki mannsbarnanna.“

„Nú hefur það tekist,“ sagði Leppalúði og bætti við: „Hlutverki okkar í mannheimum er lokið. Nú þurfum við að að fara aftur heim. Aftur heim til fjalla.“
„Ætlið þið þá að flytja úr kjallaranum?“
„Já, elskan, það er tími til kominn,“ sagði Grýla ,„ég þarf þó að biðja þig um einn greiða.“
„Hvað?“ spurði Guðrún taugaóstyrk.
„Jólakötturinn vill verða eftir í mannheimum. Getur hann búið með þér? Kannski í einhverskonar Kósí kisuhorni.“
„Það er besta jólagjöf sem nokkurt barn gæti hugsað sér,“ svaraði Guðrún.
Jólakötturinn synti í átt að Guðrúnu.
„Honum þykir jú best að búa með einhverjum með tröllablóð.“
„Sjáumst að sinni, skinnið mitt,“ sagði Leppalúði, „skilaðu kveðju til karlræfilsins hans pabba þíns. Segðu honum að hann þurfi ekki að flytja með fjölskylduna sína í bala.“

Hjúin vinkuðu bless og gengu á brott.
„En bíðið!“ hrópaði Guðrún, „hvað er hinn sanni jólaandi?“
„Það er andinn sem hjálpar mannsbörnunum að skilja,“ sagði Grýla, „hvað það er sem raunverulega skiptir máli á jólunum.“
Guðrún faðmaði jólaköttinn að sér og horfði á eftir hjúnum þar sem þau gengu hönd í hönd upp til fjalla.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!