Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Aðfangadagur

Urður gekk ganginn fram og aftur. Það var svo skrítið að þar væri engin lítil hurð. Hún hugsaði um litla vin sinn sem væri vonandi búinn að hjálpa með allar gjafirnar og í þann mund að fara borða jólagraut með smjöri og rauðri saft.

Urður var búin í jólabaðinu og komin í sitt fínasta púss. Hún sat í fanginu á ömmu sinni í eldhúsinu og fylgdist með foreldrum sínum þeytast fram og aftur með matarföt, potta og ausur. Það var kveikt á útvarpinu, en frá því heyrðist ekkert. Í útsendingunni ríkti algjör þögn. „Nú fer alveg að hringja inn“ hvíslaði amma í eyra Urðar. Þær hlustuðu á útvarpsþögnina og skarkalann í eldhúsinu.

Kling, kling, kling
Jólabjöllurnar í útvarpinu hringdu inn jólin. Á sama augnabliki virtust öll verk í eldhúsinu klárast. Ótrúleg værð færðist yfir og þau knúsuðust og kysstust gleðileg jól. Þau gengu saman inn í stofu og horfðu á jólatréð sem fyllti upp í hálfa stofuna, uppljómað. Undir trénu var fullt af pökkum, en það var ekki það sem fangaði athygli Urðar. Á miðju trénu lá stórt umslag stílað

TIL URÐAR
Hjálparhellu
jólaálfsins

Urður horfði stóreyg til mömmu sinnar og pabba. Þau brostu og kinkuðu kolli. Hún tók umslagið og opnaði.

Kæra Urður, Mamma og Pabbi
Ég er svo þakklátur fyrir alla hjálpina við að komast heim fyrir jólin. Hugsunin um vonsvikin börn gerði mig svo dapran, því ég vil að allir geti fengið að vera glaðir á jólunum. Álfafjölskyldan var líka ósköp áhyggjufull því þau höfðu ekkert séð mig. Það er dýrmætt að vera með þeim á jólunum. Yðar einlægur
Níels Julenisse

Urður brosti og leit yfir stofuna. Stofuborðið svo fallegt í flöktandi ljósinu frá kertinu. Mamma, pabbi, amma Stína og Urður, um það bil að troða sig út af kræsingum og jólaöli, dansa í kring um jólatréð og opna pakka. Samt var það alls ekki það sem skipti mestu máli. Það dýrmætasta var að Urður var ekki lengur að laumast með óþægilegt leyndarmál, að mamma og pabbi trúðu henni og höfðu verið ómetanleg hjálp. Það dýrmætasta af öllu var að þau áttu hvort annað að og voru saman. Hún faðmaði að sér bréfið og hvíslaði út í loftið „Gleðileg jól“

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað