.

23. desember
Katla og Leó vakna við að Birta, hundurinn, stekkur í bælið til þeirra og sleikir þau í framan. Systkinin líta hvort á annað og muna á sama tíma hvar þau eru stödd, í hinu eina sanna Grýlubæli. Þau brosa út að eyrum og fara á fætur. Skórnir þeirra standa á hellisgólfinu og ofan í hvoru pari eru blýantar í mannfólksstærð.

 „Þessir eiga eftir að koma sér vel í dag,“ segir Leó.

Birta dillar skottinu og geltir, krakkarnir hlæja og elta hana inn í eldhús þar sem Grímur er að kenna Grýlu að elda hafragraut. Kári, Leppalúði og Kertasníkir eru að nýta tímann fyrir mat til að teikna í teikniblokkirnar.

Jólakraftaverkið sem Leó datt í hug við kvöldverðarborðið í gær eru blóm sem blómstra bara á vorin, blóm sem finnast ekki í desember. Allir fullorðnir sem fá ekki lengur í skóinn munu vakna í fyrramálið og finna ilmandi ferskan blómvönd. En það mun bara gerast ef þau bretta upp ermar og teikna blóm í teikniblokkirnar þangað til hendurnar geta ekki meira. Stúfur hringir til að bjóða fram aðstoð ellefu bræðranna í Bæjarhelli. Leó upplýsir þá um áætlunina og sem betur fer höfðu allir bræðurnir tekið með sér auka teikniblokkir til byggða. Þeir bretta allir upp ermarnar, koma sér fyrir víðsvegar um Bæjarhelli og teikna blóm meðan Ketkrókur leggur sig eftir næturvaktina.

Katla passar sig að nýta blaðsíðurnar vel, hún teiknar mörg blóm í einu á sömu blaðsíðuna svo lokar hún teikniblokkinni og bíður eftir bjölluhljóðinu. Bunki af gleym-mér-ei-um birtist sem Katla leggur í eina af mörgum blómahrúgum hjá Kertasníki sem hefur fengið það verkefni að binda blómin saman í blómvendi.

Nokkrir skjálftar hrista hellinn duglega og Kári fær þær fréttir frá Veðurstofunni að það sé kvikuinnskot undir jöklinum en engin leið að vita hvort eða hvenær eldgos gæti hafist. Grýla er ekki áhyggjufull. Hún treystir því að jólatöfrarnir verndi þau frá náttúruöflunum. Grýla er fyrst til að gefast upp á að teikna blóm, hún setur á sig svuntu og byrjar að elda vel kæsta skötu með tilheyrandi óþef.

Þeim tekst að klára síðasta blómvöndinn rétt áður en skatan er lögð á borð ásamt hamsatólgi, rófum og rúgbrauði með smjöri. Grýla segir þeim söguna af Þorláki helga sem Þorláksmessa er kennd við og svo uppgötva þau stórt vandamál. Kertasníkir getur ekki borið alla blómvendina einn auk allra gjafanna en þá er það Katla sem fær frábæra hugmynd. Hún nær sér í töfrateikniblokk og teiknar eina mynd til viðbótar.

 „Tilbúin,“ segir Katla þegar hún leggur frá sér blýantinn og lokar teikniblokkinni. Þau heyra bjölluhljóm og líta í kringum sig. Allt í einu heyrist hátt flaut fyrir utan hellinn, Katla hleypur út með öll hin á hælunum. Fyrir utan Grýluhelli, á snæviþöktum jöklinum, stendur stór rauð lest.

 „Snillingur!“ segir Leó og gefur Kötlu fimmu.

 „Katla, ertu nokkuð búin að gleyma að það eru engir lestarteinar á Íslandi?“ spyr Kári.

 „Pabbi, þetta er að sjálfsögðu fljúgandi lest,“ segir Katla og ranghvolfir augunum.

 „Að sjálfsögðu,“ hvíslar Grímur glottandi til Kára.

Þau hjálpast öll að við að ferja blómin inn í vagna lestarinnar, síðan fara Kertasníkir, fjölskyldan og Birta um borð og lestin tekst á loft.

 „Takk kærlega fyrir okkur,“ kallar Kári niður til Grýlu og Leppalúða. „Okkar var ánægjan, takk fyrir hjálpina!“ kallar Grýla upp til þeirra og veifar þeim.

Stefnan er fyrst sett á Bæjarhelli þar sem allir hinir jólasveinarnir stútfylla lestina af blómvöndum og stíga svo um borð til að hjálpa Kertasníki við dreifinguna. Lestin lendir fyrst í götunni þar sem fjölskyldan á heima. Þar kveðja þau jólasveinana og kynna svo Birtu fyrir nýja heimilinu sínu.

Vegna hrakfara Kára er jólatréð ennþá ofan í kassa, svo seint á Þorláksmessukvöldi setur fjölskyldan jólatréð saman og skreytir það með ljósum, kúlum og allskonar öðru skrauti.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður