En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

23. kafli: Óvæntir endurfundir

Þau litu hvert á annað í daufu skyni kertaljósanna. Hafði lögreglan ákveðið að koma eftir allt saman? Nornin stóð upp og gekk hægt að dyrunum.

            „Já,“ sagði hún og opnaði í hálfa gátt.

            Pétur gægðist framhjá henni. Þar stóð lágvaxin vera.

            „Gott kvöld.“ Röddin hljómaði eitthvað kunnuglega. „Ert þú Aðalheiður Jónsdóttir.“

            „Það er ég, hvort sem þú trúir því eða ekki.“

            „Alla?“ sagði röddin og hljómaði undrandi. „Alla úr Eyrarkoti?“

            „Jaaá.“ Nornin dró seiminn.

            „Manstu ekki eftir mér? Við vorum saman í Gufuskóla.“

            „Petrína?“

            „Amma,“ hrópaði Pétur og tróð sér framhjá norninni.

            „Nei, þarna ertu, Pétur minn,“ sagði amma hans og faðmaði hann að sér. „Við erum búin að hafa svo miklar áhyggjur. Pabbi þinn er alveg að farast. Og þú hlýtur að vera Stefanía,“ bætti hún við þegar hún kom auga á Stefaníu. „Foreldrar þínir eru líka í öngum sínum. Best að ég hringi í þau og láti vita að þið séuð fundin.“ Hún dró upp síma með stórum tökkum og hringdi. „Þau eru á leiðinni,“ tilkynnti hún og lagði á. „Á ekkert að bjóða manni inn?“

            „Jú, jújú, auðvitað,“ sagði nornin hvumsa og steig inn úr dyrunum. Lubbi veitti ömmu höfðinglegar móttökur með því að slefa hressilega yfir stígvélin hennar.

            „Svo það er hérna sem þið hafið haldið ykkur,“ sagði amma og tyllti sér á eldhúskoll.

            „Hvernig vissirðu hvar við vorum?“ spurði Pétur. Þau Stefanía höfðu passað vel upp á að segja ekki eitt einasta orð um nornina þegar aðrir heyrðu til.

            „Nú, ég las bara heimilisfangið á póstkassanum sem þú varst að smíða hjá mér. Það var ekki flóknara.“ Hún bandaði Lubba frá sér. „En hvernig höfðuð þið eiginlega upp á henni Öllu?“

            Pétur og Stefanía litu hvort á annað en svo sögðu þau ömmu allt. Hægt í fyrstu en fljótlega flæddu orðin út úr þeim eins og slefið út úr Lubba.

            „Jahérna, þið segið nú ekki lítið,“ sagði amma þegar krakkarnir höfðu lokið við frásögnina. „Að þú skyldir hafa hírst hér allan þennan tíma, Alla. Í þessari svínastíu!“

            „Heyrðu mig nú, vinkona,“ hreytti nornin í ömmu. „Ég veit ekki betur en pabbi þinn hafi verið svínabóndinn í sveitinni.“

            Svo skelltu þær báðar upp úr.

            „Að öllu gamni slepptu þá held ég ekki að þú ættir að búa hérna lengur,“ sagði amma þegar þær höfðu náð sér. Hún leit í kringum sig og fitjaði upp á nefið.

            „Það fer bara ágætlega um mig, þakka þér fyrir.“

            „Alla, þakið lekur og vindurinn blæs í gegnum veggina. Ég á ágætan bílskúr sem þú getur fengið. Þar geturðu framkvæmt allar þær nornakúnstir sem þér dettur í hug.“

            Nornin hugsaði sig um. „Er eitthvert húsfélag með í spilinu?“ spurði hún svo.

            „Ekki nema þú viljir stofna eitt slíkt.“

            „Hreint ekki!“ hrópaði nornin. „Hvenær get ég flutt inn?“

            „Strax í dag.“

            Nornin stóð upp og náði í piparköku-Hallgrímskirkjuna sem tróndi ofan á ísskápnum.

            „Nú skulum við fagna,“ sagði hún og braut kossinn ofan af turninum. Fljótlega var kirkjan rústir einar og þegar foreldrar krakkanna bönkuðu loksins upp á var ekki eitt mylsnukorn eftir.


Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.


Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Tómas Zoega um Pétur og Stefaníuopnast á hverjum degi til jóla!Hver býr í kofanum? Eru allar nornir hættulegar? Fylgist með spennandi jólaævintýri Péturs og Stefaníu á hverjum degi til jóla!

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!