En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

23. Pabbi Gluggagægir

Reykmökkurinn mótaði nokkurs konar hlið fyrir hellisopinu. Guðrún gekk inn um hliðið en sá ekkert fyrir reyknum. Það eina sem hún skynjaði var lyktin. Hún fann ilm af jólatré, piparkökum og laufabrauði. Hún fann bragðið af brúnuðu kartöflunum sem pabbi gerði fyrir jólin, rauðkálinu hennar mömmu og rjómasósunni sem hún baðaði kartöflurnar í. Guðrún andaði að sér reyknum. Skyndilega var sem hún væri heima í stofunni á þrettándu hæð. Hún sá mömmu sem var klædd í eldrauðan kjól og pabba sem var í fallegri lopaskyrtu með skotthúfu. Henni fannst hún sökkva ofan í jólabaðið og heyra hlátrasköllin úr foreldrum sínum innan úr eldhúsinu. Guðrún fann fyrir eftirvæntingu, sömu spennu og hún fann fyrir hvern einasta aðfangadag. Hvern einasta aðfangadag í faðmi fjölskyldunnar.

„Finnurðu hinn sanna jólaanda?“ heyrðist sagt í hásri röddu sem barst innan úr reyknum.
Guðrún sá móta fyrir karli fyrir framan sig.
„Þetta er bara ég.“ Karlinn gekk nær.
Guðrún kannaðist við hann.
„Þetta er bara ég,“ sagði karlræfillinn í kjallaranum og bætti við: „Litli afi þinn.“
„En, þú ert Leppalúði,“ hvíslaði Guðrún skelfingu lostin.
„Einmitt. Þú hefur komist að hernaðarleyndarmálinu.“
„Já, ég veit hver þú ert og þú ert ekki afi minn.“
„Víst er ég það mannsbarnið mitt, þú ert sonardóttir mín.“
„Meinarðu að pabbi minn sé sonur þinn?“
„Mikið rétt, sá tíundi í röðinni.“
„Gluggagægir?“ Guðrún varð steinhissa.
„Mikið rétt.“

Guðrún missti andlitið. Pabbi hafði þá ekki rænt gjöfunum frá Gluggagægi. Hann var Gluggagægir. Pabbi hafði gefið gjafirnar til barnanna í landinu til að bjarga henni. Hann hafði fórnað gjöfunum fyrir Guðrúnu.
„Ó, nei!“ veinaði Guðrún. „Þetta þýðir að ég sé stúlkan sem skemmdi jólin.“
„Einmitt. Blessuð börnin eru brjáluð.“ Leppalúði hló dátt og kallaði: „Heyrirðu það krúsidúllan mín? Íslensku börnin eru bandbrjáluð vegna þess að þau fengu enga gjöf frá Gluggagægi.“

„Ha, ha, ha!!“ Rámur hlátur heyrðist innan úr hellinum. Hláturinn nálgaðist Guðrúnu. Hún hörfaði, læddist í áttina að útganginum.
„HVÆÆÆÆS!!!!“ Guðrún komst ekki út. Jólakötturinn stóð fyrir hellisopinu með klærnar á lofti.
„Sæl unga dama,“ sagði Grýla.
„Æ-æ-ætlarðu að éta ba-ba-barnabarnið þitt?“ stamaði Guðrún.
Guðrún skalf af ótta.
 „O-ó.“ Tennurnar í Leppalúða glömruðu.

Guðrún vildi ekki enda í barnasúpu. Ekki þessi jól. Ekki heldur næstu jól. Ekki heldur þarnæstu jól. Hún vildi helst aldrei enda í barnasúpu.
„HA HA HA, borða þig?“ Grýla veltist um af hlátri, „mannsbarn með tröllablóð? Ullabjakk! Ekki et ég mitt eigið blóð, skinnið mitt.“
Guðrún leit á tröllvaxna fingur sína. Á tröllafingurna sem hún hafði erft frá ömmu sinni, frá ömmu sinni henni Grýlu.
„Jæja,“ sagði Guðrún fegin, „fyrst þú ætlar ekki að éta mig, þá ætla ég að fara heim til mín. Heim til mömmu og pabba til þess að segja þeim að við þurfum ekki að flytja í bala.“

Guðrún gekk í átt að jólakettinum sem stóð fyrir hellisopinu.
„MJÁ!“ sagði hann og glennti glyrnurnar.
„Ég er með tröllablóð manstu?“ svaraði Guðrún. Hún gekk fram hjá kettinum og í gegnum reykmökkinn. Þá kom snjóbolti fljúgandi í gegnum reykinn. Boltinn lenti á bringunni hennar Guðrúnar. Loks kom annar snjóbolti fljúgandi og enn annar. Alveg þar til boltum rigndi inn í hellinn eins og haglél. Öskurreiðu krakkarnir úr Fjallaskóla höfðu elt hana að hellinum.

„Ó, nei,“ kjökraði Guðrún, „börnin eru búin að ná mér.“
„Fullkomið!“ sagði Grýla.
„Fullkomið!“ tók Leppalúði undir með Grýlu sinni.
Guðrún sá móta fyrir krakkahernum í gegnum reykjarmökkinn sem hljóp í átt að hellisopinu. Hún starði á vini sína. Hún starði á Sunnu sessunaut og á öll bekkjarsystkini sín sem henni þótti svo vænt um.
Grýla rak upp gleðióp: „Nú fá blessuð börnin að finna hinn sanna jólaanda!“ hrópaði hún.
„Ekki!“ grátbað Guðrún, „ekki éta vini mína!“ 

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!