Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Hvernig koma á jólaálfi heim til sín

Urður, pabbi og Níels sátu á sófanum. Pabbi sat með fartölvuna í fanginu og gúgglaði „Hvernig á að koma jólaálfi til síns heima?“ Níels starði hugfanginn á þennan töfrakassa og sönglaði på loftet sidder nissen med sin julegrød með skál af grjónagraut og vænni klípu af smjöri. Það sama gerði Urður. Eins og henni hafði fundist tilhugsunin ógeðfelld, þá var grjóni með smjöri ótrúlega góður.

Það kom í ljós að Níels var ekki með ofnæmi fyrir fullorðnu fólki og mamma og pabbi höfðu verið ótrúlega hjálpleg síðan þau björguðu Níels úr klóm jólakattarins. Þau pabbi höfðu ætlað að gera jólagjöf fyrir mömmu, sem enn var ekki komin í jólafrí, þennan dag. En það fékk að bíða. Nú skyldu þau koma Níels heim. Ekki gætu þau lifað með því að dönsk börn fengju engar gjafir.

Google hjálpaði óvanalega lítið. Þetta var greinilega ekki vandamál sem google hafði svar við á reiðum höndum. Rétt fyrir hádegi hringdi mamma. Frændi samstarfskonu hennar var á leið með flugi til Danmerkur.Þau máttu engan tíma missa. Þau pökkuðu Níels ofan í litla tösku. Að þessu sinni þurfti hann ekki að húka á milli upprúllaðra fata, heldur fékk hann mjúkan kodda undir sig og hlýtt teppi. Þau brunuðu af stað, en í því hringdi mamma. „Hann er lagður af stað upp á völl “ glumdi í hátalarakerfinu í bílnum. Hún gaf sér ekki einu sinni tíma til að heilsa. Pabbi tók U-beyju. „Við náum honum uppi á velli!“ hrópaði pabbi og brunaði upp á flugvöll. Þau náðu honum ekki.

40 mínútum seinna voru þau komin upp á völl, en frændinn var víst kominn í gegnum öryggishliðið.

„Við gefumst ekki upp núna“ sagði pabbi staðfastur. Eftir að hafa troðið sér í gegnum mannmergðina og spurt fullt af fólki hvert það væri að fara lenti pabbi á danskri flugfreyju. Pabbi sagði henni alla sólarsöguna um stríðna álfinn sem hafði villst frá Danmörku alla leið til Íslands. Hvernig hann og mamma héldu að þetta væri Urður að stríða þeim, en að þau hefðu loksins séð álfinn í þann mund sem jólakötturinn var að fara borða hann. Um það hvernig álfurinn þurfti að komast heim til að deila út jólagjöfum. Á meðan pabbi sagði upp og ofan af sögunni hafði Níels laumast upp úr töskunni sinni. Hann brosti til flugfreyjunnar og veifaði. Hún hrökk aftur fyrir sig og sullaði kaffi úr pappamáli yfir gólfið. Hún var orðlaus um stund. Svo færðist bros yfir andlitið. „Ég skal taka þig með“ sagði hún, greip töskuna sem Níels var í, blikkaði og snérist á hæl. „Glædileg jul“ var það síðasta sem þau heyrðu og svo voru þau horfin. Flugfreyjan og Níels.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað