22. desember
Áður en Gáttaþefur fór til byggða í gær, rak hann nefið út og þefaði uppi lítið snjóhús sem stóð við hliðina á rauðum skífusíma. Þar inni sváfu maður og hundur. Gáttaþefur bar þau heim í Grýluhelli og fór svo sína leið.
Kæru Katla og Leó
Bróðir minn hann Gluggagægir hafði samband við mig í gær og bað mig um að hafa nefið úti fyrir pabba ykkar. Hann er nú kominn í öruggar hendur í Grýluhelli. Þið getið búist við að heyra frá honum þegar hann vaknar, vonandi kann hann betur á símaapparatið en hún Grýla mamma.
Kveðja,
Gáttaþefur
Systkinin finna bréfið og sitthvorn skopparaboltann frá Gáttaþefi. Þau hlaupa niður með bréfið og sýna pabba sínum. Grímur tekur bréfinu með fyrirvara, því hann trúir varla að jólasveinarnir gætu bjargað Kára. Hann heldur þó í vonina og byrjar að græja morgunmat fyrir sig og krakkana en heima í Grýluhelli er Kári að rumska.
Kári opnar augun og horfir beint upp í steinloft, það tekur hann smá stund að átta sig á því að hann er ekki lengur inni í snjóhúsinu. Hann sest snöggt upp og finnur þá eitthvað loðið strjúkast við aðra höndina. Kári lítur niður og sér tíkina Birtu kúra hjá honum. Þau liggja bæði á gærum sem hylja hart steingólf.
„Við erum inni í helli,“ hugsar Kári „hvernig komumst við hingað. Og það sem meira er, hvernig komumst við út?“ Hann lítur í kringum sig í leit að útgönguleið og hrekkur við þegar hann kemur auga á Grýlu standa í gættinni.
„Góðan daginn Kári og vertu velkominn, ég átti von á þér,“ segir Grýla við Kára. „Þú hins vegar, kemur mér á óvart,“ segir hún við hundinn. Birta geltir. „Ég vona að þú sért ekki hrædd við kisur,“ segir Grýla.
„Er mig að dreyma eða ert þú í alvöru hin eina sanna Grýla?“ spyr Kári forviða.
Grýla kinkar kolli og fylgir honum inn í eldhús.
Grímur, Katla og Leó eru að borða morgunmat þegar síminn hringir, Kári birtist á skjánum og fyrir aftan hann sjá þau Grýlu, Leppalúða, Ketkrók og Kertasníki. Grímur gapir.
„Ég trúi þessu varla sjálfur en ég vaknaði í Grýluhelli í morgun og Grýla sjálf hefur boðist til að fylgja mér í bæinn,“ segir Kári.
„Vá! Ertu í alvöru í Grýluhelli?! Megum við koma til þín?“ spyr Katla spennt.
„Ég veit ekki alveg hvort það gangi upp,“ segir Kári hikandi.
„Jú, jú, það er alltaf nóg pláss á þessum tíma,“ segir Grýla á bak við Kára.
„Við getum því miður ekki bara skroppið upp á jökul, það er allt of hættulegt ferðalag, sérstaklega í þessu veðri,“ segir Grímur og Kári kinkar kolli.
„Þið gætuð auðvitað fengið far með pokanum,“ stingur Leppalúði upp á.
„Hvaða poka?“ spyr Leó.
Grímur og krakkarnir keyra að rótum jökulsins þar sem björgunarsveitin hefur slegið upp tjaldbúðum. Í þann mund sem þau stíga út úr bílnum kemur Grýla röltandi niður bratta hlíðina. Björgunarsveitafólkið trúir ekki eigin augum, nokkrir taka upp síma og taka myndir eða myndbönd af Grýlu. Grýla er um fjórir metrar á hæð, þéttvaxin og hrukkótt. Hún hefur vafið sjali utan um hárlubbann sem felur loðnar axlirnar. Undan kjólræflinum sést glitta í hala. Í annarri hendi heldur hún á gamla óþekktarormapokanum sínum, hann er risastór og nóg rými til að Grímur og krakkarnir komist vel fyrir.
Það verða miklir fagnaðarfundir þegar þau fá loksins að knúsa Kára. Þau fá skoðunarferð um Grýluhelli og velta fyrir sér hvernig best sé að bjarga jólunum.
Það er Leó sem fær frábæra hugmynd.
„Hvað ef allir fá einstaka gjöf í skóinn á aðfangadag? Líka fullorðnir, eitthvað sem er bara hægt að gefa fyrir tilstilli töfra?“
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.