Nornin
stikaði yfir hæðina sem lá milli kofans og lögreglustöðvarinnar. Lubbi tölti
við hlið hennar hinn ánægðasti með göngutúrinn og dillaði skottinu. Pétur og
Stefanía fylgdu fast í kjölfarið. Nornin hafði reynt að senda þau heim en bæði
höfðu harðneitað.
„Ég er komin!“ tilkynnti hún hárri
röddu um leið og hún hrinti upp dyrunum á lögreglustöðinni
Allra augu beindust að norninni.
„Hvað heldurðu að þú sért að gera?“
Einkennisklædd lögreglukona flýtti sér til hennar.
„Nú, gefa mig fram auðvitað,“ sagði
nornin hranalega
„Hér eru hundar bannaðir,“ sagði
lögreglukonan. „Vinsamlegast skildu hann eftir úti. Annars verð ég að biðja
ykkur öll um að fara.“ Hún hljómaði ekki vitund vinsamlega.
„Ég held nú síður. Ég er eftirlýst.
Pétur,“ nornin benti Pétri á að koma til sín, „réttu mér auglýsinguna.“ Hann
gerði það en flýtti sér svo aftur í skjól á bakvið Lubba. „Sjáðu.“ Hún otaði
blaðagreininni framan í lögreglukonuna. „Hérna stendur það skýrum stöfum: Lögreglan
lýsir eftir Aðalheiði Jónsdóttur.“
„Aðalheiður Jónsdóttir. Ert það þú?“
„Það ætla ég rétt að vona.“
„Það getur ekki verið. Þessi grein
er orðin þriggja vikna gömul og Aðalheiður Jónsdóttir er löngu komin í
leitirnar. Hún...“ Konan hikaði. „Hún fannst látin. Eða réttara sagt þá fannst
höfuðkúpan hennar í húsbrakinu sem sprengingin skildi eftir sig.“
„Það hefur verið Konráð,“ sagði
nornin. „Hann var afi minn og dó löngu áður en þú fæddist. Ég ætla rétt að vona
að þið hafið passað vel upp á hann.“
„En ...“
„Heyrðu mig nú. Ég er Aðalheiður
Jónsdóttir og ekki orð um það meir. Ég bý í eldhúsi á yfirgefinni lóð hérna
hinum megin við hæðina og hér er ég eftirlýst.“ Hún potaði svo harkalega í
útprentuðu blaðagreinina að það kom gat á hana. Svoleiðis getur gerst þegar
fólk er með langar nornarneglur.
„Býrðu í eldhúsi á yfirgefinni lóð?“
Konan hljómaði efins.
„Hvort ég geri.“
„Ég held að þið börnin ættuð að koma
ykkur heim,“ sagði lögreglukonan.
Nornin reyndi að malda í móinn en
allt kom fyrir ekki. Enginn á lögreglustöðinni vildi trúa því að hún væri sú
sem hún segðist vera.
„Við erum að loka,“ sagði
lögreglukonan ákveðin. „Verið þið sæl og gleðileg jól.“
Það var niðurlútur hópur sem sneri
aftur í kofann. Einungis Lubbi var hæstánægður með þennan fína göngutúr.
„Ég er greinilega orðin svo týnd að
ég get ekki einu sinni fundið sjálfa mig,“ sagði nornin.
Þau settust við eldhúsborðið og
kveiktu á nokkrum kertum. Nornin opnaði smákökudósina og þau mauluðu síðustu
piparkökurnar í hljóði.
Þá var skyndilega bankað á hurðina.