En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

22. Töfrasokkarnir

„En, en, en,“ stamaði Guðrún. „Kannski kom eitthvað fyrir Gluggagægi og hann gat ekki gefið í skóinn.“ „Það getur ekki verið,“ sagði Sunna sessunautur.„Öll börn vita að eina hlutverk jólasveinanna er að gefa börnum gjafir. Jólasveinar. Eiga. Að. Gefa. Gjafir!“
„En kannski gerðist eitthvað hræðilegt,“ muldraði Guðrún, „kannski ætlaði Grýla að borða mannsbarn og kannski stal einhver gjöfunum hans Gluggagægis til að bjarga barninu. Kannski var Gluggagægir meira að segja sjálfur að reyna að bjarga barninu. Þess vegna gat hann kannski ekki gefið íslensku börnunum í skóinn þetta árið.“

Sunna hló. „Það vita allir að jólasveinarnir eru bara karlar sem búa uppi í fjöllum og koma til mannheima einu sinni á ári til að gefa börnum gjafir! Það er þeirra eina hlutverk. Svo ef þeir gefa ekki gjafir eiga þeir ekki skilið að vera til!“
„Mér finnst þú frekar frek,“ sagði Guðrún ákveðin og reyndi að halda tárunum inni. „Af hverju eiga saklausir karlar í fjöllunum að gefa öllum börnum gjafir á hverju einasta ári?“
„Þeir eru ekki saklausir, þeir eru þjófar.“
„Hefur Gluggagægir einhvern tíman stolið einhverju frá þér?“
„Nei. En mér alveg sama!“
„Hefur Gluggagægir ekki gefið þér gjöf á hverjum jólum í sjö ár?“
„Hættu að snúa út úr Guðrún! Ert þú kannski með jólasveinunum í liði?“
„Já, ég ætla sko ekki í stríð við jólasveinana!“ kjökraði Guðrún.

Sunna varð eldrauð í framan. Hún beygði sig að stórum snjóskafli, fyllti lúkurnar af fönn og byrjaði að hnoða bolta.
„KRAKKAR!“ öskraði Sunna yfir skólalóðina endilanga. Öll sem eitt þögnuðu börnin og sneru sér að Sunnu. Hún rétti úr sér og hrópaði: „GUÐRÚN ER MEÐ SVIKULU JÓLASVEINUNUM Í LIÐI!“

Krakkarnir störðu á Guðrúnu. Hún starði til baka. Hún starði á óteljandi öskureið andlit. Hún fylgdist með krökkunum sem ýmist krepptu hnefana eða hófust handa við að hnoða snjóbolta. Það ríkti grafarþögn á skólalóðinni. Guðrúnu heyrði sinn eigin hjartslátt.

 „ÁRÁS,“ hrópaði Sunna.
Snjóbolta var kastað í átt að Guðrúnu. Boltinn lenti á öxl hennar. Öðrum snjóbolta var kastað að henni, loks þriðja og fjórða og fimmta og sjötta. Allt þar til snjóboltum rigndi yfir hana eins og skotum úr hríðskotabyssu. Guðrún hljóp af stað, spretti út af skólalóðinni. Allir krakkarnir eltu hana.

Guðrún hljóp og hún hljóp. Af einhverjum ástæðum fann hún ekki fyrir þreytu. Hún þaut hraðar og hraðar. Það var eins og eitthvað ýtti henni áfram. Hún vissi ekki hvert hún stefndi en fann hvernig rauðu ullarsokkarnir vísuðu henni veginn. Hún lyftist upp frá jörðinni. Flaug á ógnarhraða í burtu frá krakkaskaranum. Hún trúði þessu ekki. Ullarsokkarnir flugu með hana yfir Fjallahverfi. Hún flaug svo hratt að smám saman hætti hún að heyra í stríðnisveitinni úr Fjallaskóla.

Guðrún lenti mjúklega á jörðinni í útjaðri Fjallahverfis, fyrir framan stóra fjallið í hverfinu. Fjallið sem hverfið var kennt við.
Mikinn reyk lagði frá fjallinu. Guðrún fór nær og fann unaðslega lykt af reyknum. Hún elti ilminn sem leiddi hana að litlu hellisopi á miðju fjallinu.
„Elsku mannsbarnið mitt,“ heyrðist í hásri rödd innan úr hellinum, „ullarsokkarnir hafa leitt þig til mín.“ „Halló,“ svaraði Guðrún, „hver er þar?“
„Hinn sanni jólaandi,“ svaraði röddin í reyknum.   

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!