Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Jólakötturinn

Aftur var komin nótt. Aftur voru Urður og Níels komin út. Að þessu sinni var Urður pollróleg.Hún hafði undirbúið fjallgönguna vel. Hún var vel klædd, á bakinu poki með nesti og á enninu bar hún hellaljósið hans pabba. Meira að segja himininn var með þeim í liði, því skýin sem höfðu byrgt þeim sýn og vætt á þeim kollinn kvöldið áður voru horfin og máninn lýsti þeim leið. Það var allt undir. Þetta mátti ekki mistakast.

Þau gengu af stað í átt að fjallinu. Malarveginn eins og langt og hann náði og þá yfir urð og þúfur. Upp gróna hlíð meðfram kindagirðingu. Níels var orðin svo þreyttur í fótunum að Urður bar hann. Urður var orðin svo þreytt að þau settust niður, fengu sér nesti. Urði var hugsað til mömmu og pabba. Eins gott að þau myndu ekki vakna. Hún hafði aldrei laumast um, eins þessar síðustu vikur. Tilhugsuninni fylgdi stingur í magann.

Urður reyndi að hrista það af sér. Þau héldu aftur af stað. Í þann mund fannst Urði skugganum, sem þau höfði séð kvöldið áður bregða aftur fyrir. Þegar hún rýndi betur sá hún ekkert. Hún beit á jaxlinn. Þetta var ekkert. Það var erfitt að klöngrast upp brattann og þar sem Níels var svo skrefstuttur gekk ferðin enn seinlegar. Þau sögðu ekkert. Bara puðuðu áfram.

Það var Níels sem rauf þögnina. „Eftir hverju eigum við að leita til að finna hvar jólasveinarnir eiga heima.“ Urður stoppaði. Spurningin sló hana alveg út af laginu. Hún hafði ekki hugmynd. Allur undirbúningurinn, allar hugsanirnar höfðu bara snúist um að komast upp í fjall. En áttu jólasveinarnir heima inni í fjallinu? Og hvernig kæmist maður inn í fjallið til þeirra? Enginn hafði nokkurn tíma farið að heimsækja jólasveinana. Afhverju ætti henni þá að takast það núna?

Urður varð örmagna á augabragði, settist niður og gróf andlitið í höndum sér. Níels fylgdi fordæmi hennar. Það varði ekki lengi, því augnabliki síðar stökk Níels á fætur. Risastórt, svart, loðið dýr var komið alveg upp að þeim, starði á þau með grænum glyrnum og hvæsti. Urður þeyttist líka á fætur og þau hlupu eins hratt og fæturnir báru þau niður brekkuna. Það brakaði í steinum undan fótum Urðar og hún hélt að hún væri að koma af stað skriðu. Lægra heyrðist í tipli Níelsar. Þrátt fyrir stærð dýrsins virtist ekkert heyrast í fótataki þess. Urður hljóp og hljóp. Bústaðurinn var enn langt í burtu, bara lítill depill í fjarlægð. Hún þakkaði mánanum fyrir að sjá þó það langt.

Heyrði hún ekki í skrefunum hans Níelsar lengur? Hún leit við. Fyrir aftan sig sá hún risavaxinn kött með álf í kjaftinum. Hann hafði náð Níels. „Neeeeiiii“ öskraði hún. Í sömu andrá birtist mamma og rétt á eftir henni pabbi. Kattarófreskjunni virtist bregða og missti gripið um Níels. Urður stökk í fangið á pabba sínum og Níels í fangið á mömmu. Honum var borgið. Um sinn. En kæmist hann nokkurn tíma heim?

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað