21. desember
Kæru Katla og Leó
Ég fer ekki aftur upp á jökul fyrr en á næsta ári því ég þarf að safna kröftum í Bæjarhelli áður en ég fer aftur heim. En mig grunar að pabbi ykkar hafi séð mig og bræður mína síðasta sunnudag, sem þýðir að hann er ekki langt frá Grýluhelli. Ég skal hafa samband heim og biðja bræður mína þar um að hafa augun opin.
Kveðja Gluggagægir.
P.S. Vonandi finnst ykkur súkkulaði vera gott.
Katla les bréfið fyrir Leó og sýnir honum súkkulaðisveinana sem Gluggagægir gaf þeim í skóinn.
„Jólasveinarnir ætla að bjarga pabba, hversu svalt er það?“ segir Katla og brosir út að eyrum.
Dauðþreyttur Gluggagægir dregur lappirnar inn í Bæjarhelli og fær símann lánaðan hjá Stúfi. Bræðurnir hringja upp í Grýluhelli og fá að tala við Gáttaþef.
„Hæ, hver er þar?“ spyr Gáttaþefur syfjaður, þeir voru greinilega að vekja hann.
„Hæ, þetta er ég, Gluggagægir. Fyrirgefðu ef við vöktum þig en Katla og Leó skrifuðu mér bréf, pabbi þeirra er týndur uppi á jökli og þau vilja fá hann heim fyrir jól. Getur þú haft nefið úti fyrir honum? Hann ætti að vera einhversstaðar þarna uppi á jökli.“
„Já, ég skal reka nefið út áður en ég fer í kvöld en fyrst þarf ég að dorma örlítið lengur,“ segir Gáttaþefur og skellir á.
Gluggagægir réttir Stúfi símann og horfir yfir hópinn, bræður hans stara allir á hann.
„Í dag er stysti dagur ársins, pabbi þeirra hefur verið einn uppi á jökli síðan á sunnudaginn, ég get ímyndað mér að hann sé orðinn einmana svo hvað getum við gert?“ spyr Gluggagægir og bræðurnir spekúlera í smá stund. Loks fær Þvörusleikir frábæra hugmynd, hann tekur upp auða teikniblokk og sendir Kára félagsskap.
Kári situr inni í pínulitlu snjóhúsi í myrkri og kulda. Grímur kvaddi Kára fyrir hálftíma því hann þurfti að fara á æfingu svo nú er Kári aftur einn í heiminum. Hann nartar í afganga frá hlaðborðinu og óskar þess að finnast fljótlega. Þá allt í einu heyrir hann bjölluhljóðið en ekkert birtist inni í snjóhúsi.
„Kannski var þetta bara ímyndun,“ hugsar Kári en þá heyrist gelt fyrir utan snjóhúsið.
„Halló? Er einhver þarna?“ kallar Kári og skríður út.
Fyrir utan snjóhúsið stendur ljósbrún og loðin tík, hún er ung en ekki hvolpur lengur, Kári áætlar að hún sé álíka stór og Moli var. Tíkin hleypur til hans, hún dillar skottinu og sleikir Kára í framan. Hann svipast um eftir eiganda en þau virðast vera ein á jöklinum. Kári klappar henni, beygir sig svo niður og hnoðar snjóbolta sem hann kastar. Hundurinn geltir glaðlega og eltir boltann en þá kemur enn einn jarðskjálftinn. Hundurinn hleypur til Kára með skottið milli lappana. Kári tekur utan um hana og róar hana niður.
Sem betur fer féll snjóhúsið ekki saman í skjálftanum svo þau skríða í skjól þar sem Kári gefur hundinum nafnið Birta.
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.