Pétur stóð í
skjóli fyrir aftan Stefaníu þegar nornin opnaði dyrnar á kofanum sínum.
„Þið eruð sein í dag,“ sagði hún og
bauð þeim inn. Krakkarnir stóðu hins vegar sem fastast fyrir utan. „Hvað gengur
nú að ykkur?“
„Við vitum að þú ert eftirlýst,“
sagði Stefanía strangri röddu og hélt útprentuðu fréttinni fyrir framan sig.
Nornin hnyklaði brýrnar svo
hrukkurnar á andlitinu dýpkuðu allar og tók við blaðinu. Svo hörfaði hún nokkur
skref og seig niður í stól eins og blaðra sem allt loftið hefur lekið úr.
„Þetta komst þá allt saman upp,“
sagði hún niðurlút. „Ég hefði svo sem mátt vita það.“
Hún leit svo meinleysislega út að
Pétur trúði því ekki að hún væri glæpakona. Augu þeirra Stefaníu mættust og þau
stigu inn í kofann. Lubbi tók á móti þeim með miklum fagnaðarlátum.
„Rændirðu banka eða eitthvað
svoleiðis?“ spurði Stefanía.
„Nei, ég týndist,“ sagði nornin.
„Það gerðist fyrir mörgum árum en það tók bara enginn eftir því fyrr en núna.“
Krakkarnir horfðu spurnaraugum á
hana.
„Er-er ólöglegt að týnast?“ spurði
Pétur varfærnislega.
„Það held ég nú ekki.“
„Hvers vegna ertu þá eftirlýst?“
„Tja, ætli það sé ekki vegna þess að
ég tók eldhúsið með mér. Það sem ég held að nágrannarnir hafi orðið hissa.“ Það
hlakkaði í norninni. „Ekki að ég hafi nokkurn tímann hitt þá,“ bætti hún við.
„En þú sagðist ekki hafa rænt
neinu,“ sagði Stefanía.
„Ég veit ekki betur en svo að ég
eigi mitt eigið eldhús sjálf.“ Nornin krosslagði hendurnar og setti upp
þvermóðskusvip. „Ég hlýt að mega nota það eins og mig lystir.“ Svo seig hún
aftur saman. „Nei, ætli þú hafir ekki rétt fyrir þér. Ég gekk kannski of langt.
Ég óskaði þess bara svo heitt að ég kæmist í burtu að þegar það loksins gerðist
flæktust Lubbi og eldhúsið með. Ég var að vona að ég endaði á einhverjum
spennandi stað, kannski Máritíus, en með heilt eldhús í eftirdragi dugði óskin
bara hingað. Það verður nú samt að segjast eins og er að ég er afskaplega ánægð
með að hafa lent á þessari yfirgefnu lóð. Annars hefði ég aldrei kynnst ykkur
krökkunum. En allt tekur enda, bæði það góða og það slæma. Það er kominn tími
til að ég geri hreint fyrir mínum dyrum. Það gengur ekki að virðuleg norn húki
í felum og hnupli rafmagni frá nágrönnunum. Ég er orðin þreytt á þessu
laumuspili.“ Hún stóð á fætur með óvæntum krafti. Svo sveipaði hún um sig
svörtu loðkápunni.
„Komdu, Lubbi,“ sagði nornin og
opnaði dyrnar út í desemberskammdegið. „Við þurfum að líta í heimsókn niður á
lögreglustöð.“
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.