En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

21. Jólasveinninn sem skemmdi jólin

Morguninn eftir vaknaði Guðrún við hlátrasköll í bræðrunum. Þeir stóðu í stofunni og dönsuðu í kringum strigapokana hans pabba.

„Einn handa mér.“ Skreppur tók fagurrauðan pakka úr einum strigapokanum.
„Tveir handa mér.“ Leppur teygði sig í tvo pakka úr sama poka.
„Þrír handa mér! Fjórir, fimm eða endalausir!“ hrópaði Skreppur og hvolfdi pokanum þannig að óteljandi pakkar lentu á gólfinu í kofanum þar sem bræðurnir bjuggu.

„Þetta eru bestu jól sem ég hef nokkurn tímann upplifað!“ hrópaði Leppur.
„Þetta eru bestu jólagjafir sem ég hef nokkurn tímann fengið!“ kallaði Skreppur.
Guðrún horfði hvöss á bræðurna.
„Þið fenguð ekki þessar gjafir,“ sagði hún, „þær eru ekki handa ykkur!“
„Víst eru þær handa okkur!“ hvæsti Skreppur.
„Víst, víst víst, punktur og pasta bannað að breyta,“ ítrekaði Leppur.
 „Þe-þe-þetta,“ stamaði Guðrún, „þetta eru gjafirnar sem þið stáluð frá pabba mínum!“

 „Ekki vera leið Guðrún,“ sagði Skreppur stríðnislega.
„Við erum líka með gjöf handa þér Guðrún,“ söng Leppur.
Skreppur rétti Guðrúnu mjúkan grænan pakka með rauðri slaufu utan um. Guðrún opnaði hann varlega og virti fyrir sér innihaldið: jólarauður heilgalli með belti í miðjunni og brún gúmmístígvél. Hún klæddi sig í fötin, setti á sig skotthúfuna og fór í eldrauðu ullarsokkana sem hún hafði hengt á ofninn daginn áður.

„Takk fyrir,“ sagði Guðrún, „en nú þarf ég að fara í skólann.“
„Gangi þér vel í skólanum Guðrún,“ sögðu bræðurnir í kór, aftur og aftur, „gangi þér vel. Gangi þér ofboðslega vel.“
Guðrún kvaddi bræðurna og tók í húninn á útidyrunum.
„Bíddu!“ kallaði Leppur, „þú gleymdir nestinu þínu Guðrún!“ Hann rétti henni kringlótt kökubox. „Þú færð bara jólaköku, vegna þess að ég er besti frændi í heimi.“ Leppur skellti upp úr.

„Nei, ég er besti frændi í heimi!“ gólaði Skreppur og rétti Guðrúnu annað kökubox. „Þetta er bara nammi. Ískyggilega bragðgott og ótrúlega óhollt!“
„Takk,“ tuldraði Guðrún og bætti við: „Þið eruð samt ekki frændur mínir, þið eruð þjófar.“
„VÍST ERUM VIÐ FRÆNDUR ÞÍNIR!“ Leppur leit reiðilega á Guðrúnu.
„Víst, víst víst! Punktur og pasta bannað að breyta,“ ítrekaði Skreppur.
„Nei,“ sagði Guðrún ákveðin.
„Gluggagægir er bróðir okkar og hann er líka...,“ ískraði í Lepp.
„Usss! Þú mátt ekki koma upp um hernaðarleyndarmálið!“ fnæsti Skreppur.

Guðrún ranghvolfdi augunum og opnaði útidyrnar. Leppur ýtti Guðrúnu út úr kofanum og Skreppur skellti útidyrahurðinni á eftir henni. Þegar Guðrún leit á skólalóðina brá henni í brún. Skólabræður hennar voru rauðir af bræði og hlupu hver á eftir öðrum með snjóbolta á lofti. Stelpurnar stóðu ýmist uppi á hólum eða í rólum og miðuðu grjóthörðum snjóboltum á skólasystkini sín.

Guðrún fann skyndilega fyrir höggi á hnakkanum. Ískaldur snjórinn lak inn á lopapeysuna hennar. Því næst var eins og einhver hefði sparkað í magann á henni þegar stór snjóbolti lenti á henni miðri. Loks var eins og hún væri slegin utan undir. Þriðji boltinn, sem var á stærð við körfubolta lenti framan í Guðrúnu. Hún féll til jarðar.

„EKKI! ÞETTA ER GUÐRÚN“ hrópaði Sunna, sessunautur Guðrúnar.
„Áááá!!“ snökti Guðrún. Hún stóð upp.
„Við héldum að þú værir Gluggagægir,“ útskýrði Sunna.
„Nei, ég er bara Guðrún.“
„Við erum að leita að Gluggagægi,“ sagði Sunna ákveðin.
„Af hverju?“
„Vegna þess að hann skemmdi jólin,“ öskruðu öll börnin í kór.
 „En, en, ha? Skemmdi hann jólin?“ Guðrún varð stjörf.
„Gluggagægir gaf engu barni í skóinn í nótt,“ Sunna kreppti hnefana.

Guðrún starði hugsi á Sunnu. Hafði einhver komist að hernaðarleyndarmálinu? Hafði einhver stolið öllum gjöfunum af Gluggagægi? Guðrún leit í átt að kofanum. Í átt að kofanum þar sem Leppur og Skreppur voru í óða önn að opna allar gjafirnar sem höfðu komið úr brúna strigapokanum sem pabbi var með. Gat verið að pabbi hafi stolið strigapokanum af Gluggagægi? 

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!