.

20. desember
Katla og Leó fá bjúgu í skóinn frá Bjúgnakræki. Katla hlær svo hátt þegar hún uppgötvar bjúgun að hún vekur bæði Leó og Grím sem hlæja líka. Grímur hlær í fyrsta sinn síðan Kári týndist. Katla krefst þess að fá að fara í skólann því í dag verður jólasveinaleikritið sýnt og ekki er hægt að sýna jólasveinaleikrit án Askasleikis. Systkinin fá bæði að taka með sér sparinesti og Grímur lofar að mæta á jólaskemmtunina. Bekkurinn hennar Kötlu heldur upp á litlu jólin með sparinesti og leynisveinagjöfum áður en þau fara í búninga og hita upp fyrir leikritið. Grímur og Leó setjast saman á fremsta bekk til að fylgjast með leikritinu. Kennarinn kynnir bekkinn á svið og salurinn klappar þegar sögumennirnir þrír koma inn á svið og taka sér stöðu fyrir framan hljóðnema. Tindur er fyrstur til að lesa.

Segja vil ég sögu af sveinunum þeim, sem brugðu sér hér forðum á bæina heim …

Sviðsmyndin er mjög flott í sviðsljósinu, kindin hennar Kötlu gegnir mikilvægu hlutverki þegar hún er dregin eftir sviðinu í erindinu um Stekkjastaur.

Hann vildi sjúga ærnar, þá varð þeim ekki um sel því greyið hafði staurfætur, það gekk nú ekki vel.

Þegar Margrét les erindið um Askasleiki, skríður Katla undan sviðstjaldinu þar sem búið er að festa mynd af rúmi og áhorfendur hlæja.

Sá sjötti Askasleikir, var alveg dæmalaus. Hann fram undan rúmunum rak sinn ljóta haus.
Þegar fólkið setti askana fyrir kött og hund, hann slunginn var að ná þeim og sleikja á ýmsa lund.

Katla teygir sig í askinn sinn og þykist sleikja hann að innan með miklum tilþrifum, Katla sér Grím hlæja með áhorfendunum.

Þegar allir sveinarnir hafa verið kynntir á svið setjast þeir saman kringum eldstæði og Tindur les síðasta erindið:

Á sjálfa jólanóttina, sagan hermir frá,
á strák sínum þeir sátu og störðu ljósin á.
Svo tíndust þeir í burtu, það tók þá frost og snjór.
Á þrettándanum síðasti sveinstaulinn fór.

Öll hneigja sig og áhorfendurnir klappa ákaft. Grímur og Leó rísa úr sætum sínum og í kjölfarið standa allir upp og klappa. Katla hneigir sig þrisvar sinnum áður en hún þarf að flýta sér úr búningnum því kórinn hennar er næstur á svið. Katla, Tindur og Margrét hlaupa sveitt til kórfélaga sinna. Þau rétt ná andanum áður en þau ganga inn á svið og hefja söng. Grímur brosir þegar hann heyrir erindið um pabba sem kyssir jólasvein. Það er síðasta lagið á jólaskemmtuninni í dag og svo hneigir kórinn sig undir dynjandi lófataki.

 „Þvílíkur leiksigur,“ kallar Grímur með opinn faðminn og tár í augunum þegar Katla kemur niður af sviðinu.

Feðgarnir knúsa Kötlu og óska henni til hamingju með frammistöðuna í leikritinu og með kórnum. Nú tekur við jólaball sem formlega lýkur þessari önn en Katla og Leó vilja frekar fara heim með pabba sínum.

„Ég vildi óska þess að pabbi hefði séð leikritið. Ég hlakka til að segja honum allt þegar hann kemur heim,“ segir Katla í bílnum á leiðinni heim. Grímur er með kökk í hálsinum og kemur ekki upp orði.

Leó hallar sér að Kötlu og hvíslar, „ég veit hvað við getum notað seinustu blaðsíðuna í.“

 „Krakkar, ég er ekki viss um að ég hafi orku í að elda í kvöld. Við verðum að elda þessi bjúgu seinna,“ segir Grímur þegar þau koma niður stigann um kvöldmatarleytið en þá hringir síminn hans. Á skjánum stendur „Óþekkt númer.“ Grímur ýtir á græna takkann og svarar, „hæ, hver er þar?“

 „Hæ, ástin mín, þetta er ég,“ segir Kári og Grímur fellur niður í næsta stól. Kári segir þeim frá kraftaverkum síðustu daga og segist vera að hringja úr rauðum skífusíma sem hafi birst óvænt uppi á miðjum jökli.

Grímur er orðlaus svo Katla tekur orðið og segir pabba sínum frá jólasveinaleikritinu.

 „Það minnir mig á það að ég held að ég hafi séð nokkra jólasveina hverfa fyrir hól fyrsta daginn þegar við komum að laga jarðskjálftamælinn,“ segir Kári. Leó og Katla horfa spennt hvort á annað. Í símanum heyrast skruðningar í vindinum.

 „Það er farið að bæta í vindinn svo ég þarf að fara að grafa mér skjól fyrir nóttina, það var gaman að heyra í ykkur. Við sjáumst fljótlega, góða nótt,“ segir Kári.

 „Góða nótt, ég elska þig,“ segir Grímur.

 „Ég elska þig líka,“ segir Kári og skellir á.

 „Jæja, hverjir vilja fá bjúgu í kvöldmatinn?“ spyr Grímur krakkana, hann hefur fundið orkuna sína aftur.

Um kvöldið skrifa krakkarnir eftirfarandi bréf til Gluggagægis.

Kæri Gluggagægir

Kári, pabbi okkar er týndur uppi á jökli. Hann rann með snjóflóði síðasta sunnudag og lenti svo næstum því aftur í snjóflóði. Hann datt í sprungu og við sendum honum mat og skóflu svo hann kæmist út. Í dag sendum við honum síma og hann sagði okkur að hann hafi séð einhverja jólasveina á sunnudaginn. Hann er því líklega nálægt hellinum ykkar, við viljum biðja þig um að finna hann og koma með hann heim fyrir jól.

Kær kveðja,
Katla og Leó

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður