Pétur beið
eftir Stefaníu fyrir utan skólann þegar hún kom út. Hann hélt á samanbrotnu blaði
í hendinni og velti því órólegur á milli fingranna. Það var fréttin um nornina
sem hann hafði prentað út.
„Hvað er að þér?“ spurði Stefanía.
„Sástu draug?“
Pétur rétti henni blaðagreinina
orðalaust.
„Á ég að lesa þetta eða?“
Pétur kinkaði kolli og Stefanía
stundi. Hún sléttaði úr blaðinu og hóf lesturinn.
Lögreglan lýsir eftir Aðalheiði Jónsdóttur, 79 ára.
Aðalheiður hefur ekki sést síðan 1. desember síðastliðinn þegar íbúð hennar að
Holtastræti 37 sprakk í loft upp. Aðalheiður er lágvaxin, með grátt hár og
líklega svartklædd. Þau sem hafa upplýsingar um ferðir hennar eða vita hvar hún
er niðurkomin eru beðin um að hafa samband við lögregluna í síma 112.
Augabrúnir
Stefaníu lyftust sífellt hærra upp á ennið eftir því sem leið á lesturinn þar
til þær hurfu upp undir eyrnabandið.
„Er þetta Aðalheiður okkar?“ spurði
hún undrandi. „Aðalheiður norn?“
„Ég held það,“ sagði Pétur
angistarfullur. „Þarna stendur að við eigum að hafa samband við lögguna,“ bætti
hann við. Hann langaði ekkert að gera það. Hvað ef norninni yrði nú stungið í
fangelsi? Eða brennd á báli?
„Við gerum það ekki,“ sagði Stefanía
snöggt. „Manstu ekki hverju við lofuðum henni?“
Pétur kinkaði kolli.
„Þess vegna getum við ekki sagt
neinum. Ekki einu sinni löggunni,“ sagði Stefanía.
Pétur varpaði öndinni léttar.
Stefanía hafði rétt fyrir sér.
„En hvað eigum við að gera?“ Pétur
var miður sín. „Kannski er hún glæpakona.“
„Það getur ekki verið,“ sagði
Stefanía. „Ég meina, við bökuðum piparkökur með henni. Þetta hlýtur að vera
einhver misskilningur.“ Hún þagnaði og settist í rólu skammt frá. Pétur settist
við hliðina á henni. Hann var alveg ráðalaus. Nornin var orðin svo góð vinkona
þeirra. Hún átti líka Lubba sem var besti hundur í heimi. En nú var hún
eftirlýst og það stóð skýrum stöfum í fréttinni að allir sem vissu eitthvað um
hana ættu að hafa samband við lögguna. En þau höfðu lofað að segja engum frá.
Þetta var allt saman öfugsnúið.
„Við verðum að fara og spyrja hana
hvað sé eiginlega í gangi,“ sagði Pétur að lokum. „Það er engin önnur leið.“