En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

20. Strigapokinn

„Óóó!!“ aftur var öskrað. Hendur gripu um axlir Guðrúnar. Hún fékk kökk í hálsinn. En hún var ekki tilbúin að verða að hráefni í barnasúpu. Ekki strax. Þess vegna galopnaði hún munninn og beit í fingurna sem héldu um axlirnar á henni. Og hún beit af öllu afli.

 „ÁÁÁ!“ Hendurnar slepptu takinu. Guðrún sneri sér við. Hún trúði ekki sínum eigin augum.
 „Pabbi?! hrópaði hún.
 „Ertu komin með fullorðinstennur?“ Hann sleikti á sér særða puttana.
„Já, ég missti barnatennurnar í fyrra, manstu ekki?“
 „Auðvitað man ég það. Ég man líka þegar þú sagðir áðan að þú værir farin að sofa inni í herberginu þínu!“
 „É-é-ég gat ekki sofnað,“ laug Guðrún. „En hvað ert þú að gera hér?!“
„Ó, ég er bara aðeins að stússast.“ Pabbi hló vandræðalega.
 „Hvað ert þú að bralla ein úti í kuldanum? Eitthvað hræðilegt hefði getað gerst!“
 „Fyrirgefðu pabbi.“ Guðrún gerði sig líklega til að faðma pabba sinn en hann hörfaði undan. Hann var að fela eitthvað fyrir Guðrúnu.

 „Hvað ertu með fyrir aftan bak?“
 „Hvað ert þú með fyrir aftan bak?“ spurði pabbi í Guðrúnu lymskulega.
 „Uuuu... ekki neitt.“
 „ÓÓ!“ hrópaði pabbi skyndilega, „hvers vegna ertu ekki í skóm?!“
 „Ég var svo hrædd við konuna í kjallaranum að ég þurfti að flýja út úr blokkinni.“ Guðrún leit í kringum sig og bætti við: „Ég var svo hrædd um að hún myndi borða mig!“
 „Sá hún þig?“ hvíslaði hann óttasleginn.
 „Já, hún elti mig.“
 „Ó, nei.“ Pabbi var greinilega skelfingu lostinn. „Pabbi, veist þú líka hernaðarleyndarmálið?“ Guðrún starði á föður sinn.
 „Já, þess vegna verðum við að flytja. Ég vil ekki að Grýla borði barnið mitt,“ hvíslaði pabbi.

Skyndilega opnuðust dyrnar á kofanum. Leppur og Skreppur stóðu í dyragættinni. Í sömu mund stökk pabbi fram fyrir Guðrúnu til að bræðurnir sæju hana ekki. Þá kom hún loksins auga á það sem hann hafði verið að fela fyrir aftan bak. Pabbi var með risastóran brúnan strigapoka.

 „Jólasveinn!“ hrópaði Skreppur.
 „Ó, hvar?“ æpti pabbi.
„Átt þú ekki að vera að vinna?“ spurði Leppur.
„U, ó, jú einmitt,“ tuldraði pabbi.
„Þú kannt ekkert að vinna,“ tautaði Skreppur.
„Þú kannt ekki neitt,“ sagði Leppur stríðnislega.
„A-a-afsakið,“ muldraði pabbi. „A-a-a-afsakið, afsakið afsakið,“ skríktu bræðurnir sitt á hvað.

Pabbi ræskti sig: „Er Lena Leiðindaskjóða heima?“
„NEI!“ öskraði Leppur.
„HVERS VEGNA SPYRJA ALLIR ALLTAF EFTIR HENNI?!“ hrópaði Skreppur.
„Hvers vegna spyr aldrei neinn eftir okkur?“ kjökraði Leppur.
„Allt í lagi,“ sagði pabbi. Hann færði sig frá Guðrúnu til að bræðurnir gætu séð hana.
„Þið verðið að bjarga henni frá mööömm... frá Grýlu,“ sagði pabbi óstyrkri röddu.
„Enginn möguleiki,“ ansaði Skreppur.
„Ekki séns,“ tautaði Leppur.
„Gerið það,“ grátbað pabbi.
Bræðurnir hristu báðir hausinn.
„Ég skal gera hvað sem er,“ kjökraði pabbi.
„Hvað sem er?“ spurði Leppur.
„Hvað sem er,“ ítrekaði pabbi.
„Allt í lagi,“ skríkti Skreppur.
„Minnsta mál í heimi,“ flissaði Leppur og hvíslaði: „Jólasveinninn þinn.“

„Hvað sagðir þú?“ spurði Guðrún. Bræðurnir litu á hvor annan og svo á pabba. Þeir ræsktu sig og sögðu svo í kór: „Ef þú gefur okkur pokana þína, björgum við barninu þínu.“
Pabbi faðmaði Guðrúnu að sér. „Þeir munu sjá vel um þig,“ sagði hann.
Pabbi kyssti dóttur sína á kinnina og faðmaði hana að sér. Því næst rétti hann Lepp og Skrepp strigapokana sína og hljóp á brott.  

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!