Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Sælukot

Föstudagsseinnipartur. Síðasti skóladagurinn þetta árið búinn. Endaði með jólaballi og dans í kringum jólatréð. Það höfðu komið tveir jólasveinar og Urður hafði spurt þá hvort þeir gætu komið Níelsi til Danmerkur, en þeir höfðu bara hlegið. Hún hafði líka spurt þá hvort þeir byggju í Búrfelli. Þeir sögðust bara búa í öllum fjöllunum. Hún vissi samt ekki alveg með þessa sveinka. Nokkrir krakkar höfðu reynt að toga í skeggið á þeim og Urður var alls ekki viss um að þeir væru ekta. Kannski bara kallar að leika jólasveina.

En nú var hún komin heim og þeim mun meira sem hún hugsaði um það varð hún sannfærðari um að það byggju jólasveinar í Búrfelli. Hún sat tilbúin í skóm með ferðatöskuna hennar mömmu pakkaða sér við hlið. Litla hurðin var á sínum stað en engir litlir skór stóðu fyrir framan. Urður þorði alls ekki að opna töskuna enda hafði Níels sagt henni að það væri hættulegt fyrir álfa ef þeir færu á stjá á daginn og ef fólk sæi þá. Sérstaklega fullorðið fólk. Hún skyldi sko passa hann. Sérstaklega núna þegar þau voru svo nálægt því að koma honum heim. Hún var samt með smá áhyggjur, því hún gat ekki verið viss um að hann væri með.

„Urður varst þú að smyrja nesti?“ hrópaði pabbi með hausinn hálfan inni í ísskáp. Urður hristi hausinn. Pabbi leit upp þegar hún svaraði ekki og horfði á hana ásakandi augnaráði. „Mér finnst ólíklegt að hún mamma þín hafi búið þetta til“ sagði hann og lyfti augabrúnunum til að leggja áherslu á orð sín. Urður gekk að ísskápnum til að sjá nestið sem pabbi fussaði yfir.

Þegar Urður leit inn í ísskáp gat hún ekki annað en hlegið. Í ísskápnum lágu ópakkaðar samlokur sem voru alls konar í laginu, lítið hreindýr, stjörnur og hjörtu. Það sem var þó skrítnast var áleggið. Á milli tveggja brauðsneiða lágu piparkökudropar. Það leit út fyrir að Níels hefði tekið aftur til starfa. Urður hafði ekki lengur áhyggjur af Níels. Hann hlaut að vera með fyrst að hann hafði smurt nesti og hann var greinilega vongóður fyrst hann var tekinn aftur til starfa, svo það gat Urður verið líka. Nú mátti Sælukotshelgin byrja.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað