.

1. desember
Það er fallegur laugardagsmorgunn í desember, Katla Ósk borðar morgunmat með pöbbum sínum Grími og Kára. Í svefnherbergi á efri hæð hússins er Leó Már, eldri bróðir Kötlu, að spila tölvuleik þar sem hann fjarstýrir bíl gegnum stóra borg.

 „Leó!“ kallar Kári úr eldhúsinu, „komdu nú niður, grauturinn fer að verða kaldur!“

 „Já pabbi! Ég kem rétt strax!“ kallar Leó til baka en það tekur hann smá stund að slökkva á tölvunni og koma sér niður.

 Fjölskyldan hjálpast að við að ganga frá eftir morgunmatinn og leggur svo af stað úr Hafnarfirðinum í átt að Kringlunni. Þau þurfa að versla jólagjafir og kaupa nýjan aðventukrans í stað þess sem Moli eyðilagði síðustu jól. Moli var hundurinn þeirra sem dó síðasta sumar. Katla og Leó sakna hans mikið en pabbar þeirra vilja ekki nýjan hund alveg strax.

Kringlan er hátíðleg á þessum fyrsta degi desembermánaðar. Jólaljós lýsa upp skammdegið og jólalög eru spiluð í hverri einustu búð. Fjölskyldan röltir milli verslana og fyllir taupoka af verðandi gjöfum. Katla stansar fyrir framan leikfangabúð því rauð leikfangalest fangar athygli hennar. Feðgarnir taka ekki eftir neinu og ganga áfram í átt að næstu verslun.

Fæturnir bera Kötlu hugfangna í átt að lestinni og hún ímyndar sér að hún stýri lestinni eftir teinum fram hjá stórum trjám og fallegu landslagi. Hún ímyndar sér að lestin takist á loft og svífi hátt upp í skýin.

Feðgarnir uppgötva skyndilega fjarveru Kötlu og æða um Kringluna í leit að henni. Það er Kári sem finnur Kötlu inni í leikfangabúðinni, þau rölta saman fram og rekast þá einmitt á Grím og Leó sem koma hlaupandi úr sitthvorri áttinni.

 „Katla, þú mátt ekki láta þig hverfa svona,“ segir Grímur lafmóður og knúsar hana áður en þau rölta fjögur saman út á bílastæðið.

Þegar þau stíga út úr bílnum heima tekur Katla eftir því að íslenska fánanum er flaggað í garðinum við hliðina á húsinu þeirra.

 „Pabbi?“ segir hún, „já,“ svara Grímur og Kári í kór.

 „Af hverju er Erla gamla að flagga?“

 Kári svarar, „Af því að í dag er fullveldisdagurinn.“

 „Hvað er það?“

 „Á þessum degi, 1. desember, árið 1918 varð Ísland að frjálsu landi. Danmörk, sem hafði áður ráðið yfir okkur, viðurkenndi að við værum fullvalda ríki,“ segir Kári og Grímur bætir við, „1. desember er einn af fánadögunum. Þá má fólk endilega draga fána að húni.“

 „Ég skil,“ segir Katla. „Takk.“

Grímur er leikari og þarf að fara upp í leikhús rétt fyrir kvöldmat en krakkarnir eiga kósí kvöld með Kára.

Þótt Grímur vinni stundum á kvöldin gleymir hann aldrei að kyssa Kötlu á kollinn og bjóða henni góða nótt.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.


Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður