En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

1. kafli: Ófreskjan í myrkrinu

Þetta hófst allt saman í byrjun desember þegar Pétur var á leið í skólann. Hann var einn á ferð því honum hafði tekist að sannfæra pabba um að hann þyrfti ekki á fylgd að halda. Fólk sem komið var í annan bekk gat nú gert ýmislegt án aðstoðar.

            Meðfram göngustígnum voru ljósastaurar sem vörpuðu stórum ljóskúlum á nánasta umhverfi sitt. Á milli þeirra var myrkur. Pétur var staddur í birtunni við einn staurinn þegar mikill hvellur fékk hann til að hrökkva í kút. Þetta hljómaði eins og flugeldur en þar sem enn var mánuður í gamlárskvöld gat það ekki verið. Hvellinum hafði heldur ekki fylgt neinn blossi. Hljóðið bergmálaði nokkrum sinnum á milli húsanna í hverfinu þar til það dó út og grafarþögn tók við.

            Pétur skotraði augunum í kringum sig. Þetta hafði verið einum of ógnvænlegt fyrir hans smekk. Svona nokkuð átti ekki að gerast á myrkum vetrarmorgnum. Þeir áttu að vera hljóðir og kyrrlátir. Hann stóð grafkyrr við ljósastaurinn í nokkrar mínútur.

            „Svona nú,“ hvíslaði hann að sjálfum sér. „Áfram með þig. Skólinn er að byrja.“

            Pétur safnaði kjarki með því að draga djúpt að sér andann, svo greip hann um ólarnar á skólatöskunni og gekk ákveðnum skrefum af stað. Hann var kominn út í myrkrið þegar hann heyrði annað hljóð fyrir aftan sig.

            Fótatak.

            Án þess að líta um öxl tók Pétur á sprett að næsta ljósastaur. Hjartað hamaðist í brjóstinu. Á næsta andartaki þaut gríðarstór, loðin vera framhjá honum og hvarf svo út í myrkrið. Pétur rak upp skelfingaróp og greip dauðahaldi í staurinn.

            Ófreskja, hugsaði hann skelfingu lostinn.

            Hann skimaði örvæntingarfullur í kringum sig en hvergi bólaði á verunni. Hvernig átti hann nú að komast í skólann? Það var ekki möguleiki á að hann yfirgæfi skjólið sem birtan frá staurnum veitti honum. Hvað ef ófreskjan biði eftir honum í næsta runna? Þó að það væri slæmt að koma of seint í skólann var tilhugsunin um að vera étinn lifandi miklu verri.

            Þá sá hann glitra á augu úti í myrkrinu. Þau færðust nær og nær. Hægt en örugglega.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Tómas Zoega um Pétur og Stefaníuopnast á hverjum degi til jóla!Hver býr í kofanum? Eru allar nornir hættulegar? Fylgist með spennandi jólaævintýri Péturs og Stefaníu á hverjum degi til jóla!

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!