En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

1. Kósí kisuhorn

Einu sinni var átta ára stelpa sem hét Guðrún. Hún bjó ásamt foreldrum sínum á efstu hæð í þrettán hæða blokk í Reykjavík. Pabbi hennar sagði alltaf að heimilið væri staðsett í fjöllum höfuðborgarinnar. Það var alveg satt því þau bjuggu í Fjallahverfi. Heimilið var líka svo hátt uppi að Guðrún var með útsýni yfir allt hverfið af svölunum í stofunni. Hún sá yfir hvert einasta hús og alla leið að rótum fjallsins sem hverfið var kennt við. Guðrún elskaði að hangsa úti á svölum og fylgjast með fólkinu í hverfinu. Hún elskaði líka að dansa og teikna, en mest af öllu í heiminum elskaði hún kisur.

Einn blíðviðrisdag í byrjun desember skottaðist Guðrún út á svalir áður en hún fór í skólann. Hún fylgdist með Gurrý gömlu á leiðinni í sund, hún sá Hall hjúkrunarfræðing koma heim eftir næturvakt og horfði á fuglana kroppa brauðmola af svölunum í blokkinni við hliðina á. Þegar fuglarnir flugu á brott starði Guðrún á svalirnar. Hún trúði ekki sínum eigin augum. Hún vissi að herra Vilhelm sem bjó í íbúðinni á móti ætti undurfagra læðu. En þennan fallega morgun í byrjun desember var læðan ekki lengur ein. Þarna var ekki einn, heldur tveir kettlingar. Tveir pinkulitlir kettlingar sem kúrðu upp við magann á móður sinni. Herra Vilhelm kom auga á Guðrúnu úti á svölum og vinkaði henni. Svo kallaði hann:
 „Kettlingarnir eru að leita sér að góðu heimili fyrir jólin.“
 „Er það?“ hrópaði Guðrún til baka.
 „Þú gætir ættleitt einn þeirra.“ Guðrún varð spennt. Alla tíð hafði hana dreymt um að eignast kött. Hún hafði meira að segja útbúið Kósí kisuhorn í herberginu sínu. Þar hafði hún komið fyrir kattarbæli sem hún saumað í textílmennt og hengt upp teikningu af bröndóttum skógarketti sem hún teiknað í myndmennt. Á hverju kvöldi lokaði Guðrún augunum og óskaði þess að einn góðan veðurdag myndi fagur köttur flytja í Kósí kisuhornið.

Seinna þennan sama dag kallaði Guðrún foreldra sína á fjölskyldufund. Hún var búin að klæða sig upp og var tilbúin til að ræða málin.
 „Kæru foreldrar,“ sagði Guðrún, „eins og þið vitið þá elska ég kisur meira en allt í heiminum.“
 „Já, elskan.“ Mamma brosti til Guðrúnar.
 „Þess vegna vil ég biðja ykkur um kettling í jólagjöf.“
 Það kom fát á pabba. „Kemur ekki til mála!“ urraði hann.
 „En, en,“ Guðrún starði vonsvikin á föður sinn, „kettlingarnir í næstu blokk þurfa gott heimili og ég get hugsað um einn þeirra alveg sjálf.“
 Mamma og pabbi hristu höfuðið í takt.
 „Konan í kjallaranum er skíthrædd við kisur,“ útskýrði pabbi.
 „Einmitt,“ ítrekaði mamma og bætti við: „Hann pabbi þinn er líka skíthræddur við konuna í kjallaranum.“ „Ha?“ Guðrún starði á pabba sinn. „Af hverju ert þú hræddur við gamla konu?“

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!