Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Hurðin á veggnum

Urður opnaði augun í augnablik. Lokaði þeim svo aftur. ,,Ætli það sé komin dagur?” hugsaði hún með sér. Það var allavega enn enginn kominn að vekja hana. Auðvitað ekki. Það var sunnudagur. Enginn kæmi að vekja hana. Sunnudagur? Kannski var mamma komin heim! Myrkrið fyrir utan hjálpaði henni ekkert við að meta hvort það væri kvöld, mið nótt, eða morgunn. Hún áræddi að fara á fætur. Hana langaði svo að hitta mömmu. Mömmu sem hafði ekki verið heima síðan það var síðast helgi.

Gólfið var kalt viðkomu þegar hún trítlaði af stað út úr herberginu sínu. Á ganginum lituðu götuljósin veggina gula og þegar hún gekk fram hjá eldhúsinu kom notaleg birta frá jólaljósinu sem stóð í eldhúsglugganum. Lítið bros læddist fram á varirnar. Urður elskaði þennan tíma. Þegar jólaljósin voru komin upp og fengu að loga alla nóttina. Á eldhúsborðinu stóð hálfkláraður aðventukrans sem þau pabbi hennar höfðu verið að bisa við fyrir svefninn.

En hvað var þetta? Urður blikkaði nokkrum sinnum. Pírði augun. Á veggnum við hliðina á dyraopinu að eldhúsinu var eitthvað. Hún stoppaði og starði. Var þetta lítil hurð? Hún horfði aðeins lengur. Andaði aðeins örar.

Nei. Það var sennilega enn mið nótt og hana var að dreyma. Á meðan hún gekk í svefni. Allavega ekki alveg í vöku. Urður sleit augun af veggnum. Útundan sér sýndist henni hún sjá pínulitla skó, snyrtilega frágengna, með hælana upp að veggnum.

Nei. Hún var sofandi. Hún hraðaði sér inn í svefnherbergi foreldra sinna. Í rúminu voru tvær hrúgur sem virtust gráar í rökkrinu. Frá þeim heyrðist þungur andardráttur. Urður andaði léttar. Mamma var komin heim. Urður skreið upp í og laumaði sér undir sæng.

,,Hæ ástin mín. Það sem ég hef saknað þín” var umlað og Urður fann heitan andardrátt á hálsinum. ,,Æ og köldu tásurnar þínar” hvíslaði mamma. Hlýjar hendur tóku utan um tásurnar og byrjuðu að nudda í þær yl. Í örstutta stund. Mamma var sofnuð aftur. En Urður gat ekki lokað augunum. Hafði í alvörunni verið lítil hurð á ganginum?


Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað